Erlent

Kerstin Fritzl ekki hugað líf

Óli Tynes skrifar

Læknar í Austurríki telja ólíklegt að Kerstin Fritzl lifi af veikindi sín. Hún hefur verið í dauðadái á sjúkrahúsi síðan hún var leyst úr kjallaraprísund föður síns.

Læknar við sjúkrahúsið segja að líffæri hennar gefi sig eitt af öðru og því sé ólíklegt að hún lifi.

Talsmaður saksóknara í héraðinu sagði við fréttamenn að ef stúlkan deyji verði Josef Fritzl hugsanlega ákærður fyrir morð af vanrækslu.

Kerstin er nítján ára gömul og ól allan sinn aldur lokuð niðri í gluggalausum kjallaranum.

Bræður hennar Felix og Stefan eru fimm og átján ára. Þeir voru einnig lokaðir niðri í kjallaranum frá fæðingu.

Þeir eru nú með móður sinni Elísabetu í sérstakri lokaðri deild á hæli utan við Amstetten. Þar er lýsing höfð væg til þess að venja þau hægt við birtuna sem þau hafa ekki notið áður.

Elísabet er nú 42 ára gömul. Hún var 18 ára þegar faðir hennar lokaði hana niðri í kjallaranum og hóf að nauðga henni. Hann hafði raunar misnotað hana kynferðislega frá því hún var 11 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×