Körfubolti

Fékk hjartastopp í 30 sekúndur

Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Íslandsmeistara Keflavíkur í kvennakörfunni.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Íslandsmeistara Keflavíkur í kvennakörfunni.

Jón Halldór Eðvaldsson. þjálfari Íslandmeistara Keflavíkur, var sigurreifur þegar Vísir ræddi við hann eftir að hans stúlkur höfðu lagt KR að velli, 91-90, og tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna.

"Þetta var svakalegur leikur og ég játa það að fékk hjartastopp í 30 sekúndur undir restina, slík var spennan," segir Jón Halldór um æsispennandi lokasekúndur þar sem KR glutraði niður tækifæri til aðtryggja sér sigurinn. "Ég hafði þó aldrei innst inni trú á því að KR-stelpurnar myndu klára þetta."

Aðspurður um muninn á liðunum sagði Jón Halldór að breiddin í Keflavíkurliðinu hafi gert gæfumuninn. "Við spiluðum á fleiri stelpum og það skipti öllu."

Um þátt TaKeshu Watson, sem skoraði 19 stig í þriðja leikhluta og 36 stig alls, sagði Jón Halldór að slík frammistaða frá henni ætti ekki að koma á óvart. "Þessar stelpur koma hingað til þess að gera þetta. Þær fá borgað fyrir að draga vagninn þegar á þarf að halda og Watson stóð undir því í dag."

Og það verður fagnað í kvöld og næstu daga hjá Jóni Halldóri og stúlkunum hans. "Ég er í það minnsta ekki að fara að horfa á endursýningu á Bandinu hans Bubba," segir Jón Halldór og hlær. "Nú ætlum við að horfa aftur á leikinn og skemmta okkur. Það verður ljúft að sleppa sér eftir langan og strangan vetur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×