Handbolti

Guðjón Valur: Ekki búinn að afskrifa EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur fagnar marki gegn Dönum á HM í Þýskalandi.
Guðjón Valur fagnar marki gegn Dönum á HM í Þýskalandi. Nordic Photos / Getty Images

Haft er eftir Guðjóni Vali Sigurðssyni á handball-welt.de í dag að hann gæti verið frá í 5-6 mánuði í viðbót. Hann gefur lítið fyrir viðtalið sem hann kannast ekki einu sinni við.

Guðjón Valur sagði í samtali við Vísi að það þyrfti gjörsamlega allt að ganga á afturfótunum ef hann ætlaði að vera frá svo lengi. Hann gekkst undir aðgerð á öxl í september síðastliðinn.

„Ég er hins vegar bjartsýnn og stefni á að spila aftur í desember. Mér hefur liðið það vel síðustu daga og farinn að geta gert það mikið að ég geri mér vonir um það," sagði hann.

EM í handbolta hefst í janúar næstkomandi í Noregi og segir Guðjón Valur að hann ætli sér að gera allt sem í hans valdi stendur til að spila á mótinu.

„EM er það eina sem ég lifi fyrir þessa dagana, auk barnanna minna. Þetta er það sem rífur mig fram úr á morgnana og hvetur mig til að halda áfram í endurhæfingunni. Ég ætti vel að hafa þetta enda er ég búinn að lofa Alfreð því að ég verði í 150% líkamlegu formi þegar að mótinu kemur."

Hann segir að Alfreð, sem er bæði landsliðsþjálfari Íslands sem og þjálfari Guðjóns Vals hjá Gummersbach, eigi enn sem komið er erfitt með að trúa honum.

„Mér er svo sem sama um það," sagði hann í léttum dúr. „Þá hef ég bara eitthvað að afsanna."

Guðjón Valur segir einnig að það sé honum í hag að landsliðsþjálfarinn sé einnig þjálfari sinn hjá sínu félagsliði.

„Ef hann í fyrsta lagi ákveður að velja mig í liðið verður það mjög þægilegt fyrir mig. Leikmenn hafa lent í því að vera meiddir í desember en eru svo klárir í slaginn 2-3 vikum síðar. Þeir ætla sér svo að fara á stórmót með landsliðinu en þá setur klúbburinn sig upp á móti því."

Hann ætlar sér að halda áfram næstu vikurnar með jákvæðnina að vopni. „Hér nýt ég góðs stuðnings og góðrar aðstöðu. Ég ætla svo sem ekkert að tala um ef og hefði en ég ætla mér að fara til Noregs. Ef það tekst ekki þá reyndi ég alla vega allt sem í valdi mínu stóð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×