Handbolti

Halldór Jóhann tekinn af leikmannalista Essen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Halldór Jóhann í leik með KA árið 2004.
Halldór Jóhann í leik með KA árið 2004. Mynd/Pjetur

Þjálfari TuSEM Essen hefur tekið Halldór Jóhann Sigfússon af leikmannalista aðaliðs félagsins og æfir hann nú með varaliðinu.

Halldór Jóhann spilaði með liðinu í neðri deildunum en hefur engin tækifæri fengið eftir að liðið komst í þýsku úrvalsdeildina.

Horst-Gerhard Edelmeier, framkvæmdarstjóri félagsins, segir að ekki sé búið að reka leikmennina frá félaginu en Eryk Kaluzinski fékk sömu meðferð og Halldór Jóhann.

„Við viljum halda þeim báðum hjá félaginu og þeir verða kallaður aftur inn í aðalliðið þegar einhver meiðist þar, í síðasta lagi. En þangað til eiga þeir heima í varaliðinu þar sem þeir geta æft og öðlast leikreynslu."

Þjálfari liðsins, Jens Pfänder, segir að leikmannahópur liðsins sé stór og að hann vilji fá rými til að hugsa sérstaklega vel um byrjunarliðshópinn.

Varalið TuSEM Essen leikur í hinni svokölluðu Verbandsliga, nánar tiltekið í riðli 2. Þar er liðið í sjötta sæti af fjórtán liðum, með fjögur stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×