Innlent

Bjarni Ármannsson láti kaup sín í REI ganga til baka

Bjarni Harðarson þingmaður Framsóknar telur að kaup Bjarna Ármannssonar á hlut í Reykjavík Energy Invest séu algerlega siðlaus og hann skorar á stjórnarformanninn að láta kaupin ganga til baka. Hann er einnig mjög ósáttur við kaup Jóns Diðriks Jónssonar á hlutum í félaginu.

Bjarni Harðarson telur að stjórnarformaðurinn í REI hafi hagnast mjög óeðlilega á kaupum sínum í fyrirtækinu. Bjarni Ármanssonar greiddi 500 milljónir fyrir hlut sinn í REI á gengi nærri 1,30, en fram hefur komið að verðmæti hlutar Bjarna hafi meira en tvöfaldast frá því hann gekk frá kaupunum.

Bjarni Harðarson telur að stjórn REI hafi ekki gengið nægjanlega langt í viðleitni sinni til að fá frið um starfsemi fyrirtækisins en stjórnin ákvað að allir starfsmenn Orkuveitunnar og REI skuli sitja við sama borð varðandi kaup á hlutum í hinum sameinaða félagi REI og Geysir Green Energy.

Hann vill að Bjarni Ármannsson gangist undir sömu kjör og aðrir og að hann láti kaup sín á hlut í hinu nýja sameinaða félagi ganga til baka, annað sé ekki siðlegt. Þjóðin sætti sig ekki við neitt minna.

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að Framsóknarmenn séu ósáttir við framgöngu Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa flokksins, við samruna REI og Geysir Green Energy en þessi tvö félög mynda saman hið nýja útrásarfyrirtæki.

Bjarni Harðarson segir að Björn sé eini Framsóknarmaðurinn í hópi Sjálfstæðismanna í þessu máli og hann sé ekki í góðum félagsskap.

Meðal sjálfstæðismanna hafa heyrst raddir um að Orkuveitan sé komin á samkeppnismarkað með rekstri REI. Hvatamaður að stofnun REI var Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og þáverandi stjórnarformaður í Orkuveitunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×