Handbolti

Stjarnan kvaddi Ásgarð með sigri

Björgvin Hólmgeirsson byrjaði vel með Stjörnunni og skoraði átta mörk.
Björgvin Hólmgeirsson byrjaði vel með Stjörnunni og skoraði átta mörk. Vilhelm

Bikarmeistarar Stjörnunnar sigruðu Val, 25-26, í hörkuleik í Meistarakeppni HSÍ í gærkvöldi. Þetta var síðasti opinberi handboltaleikur sem Stjarnan leikur í Ásgarði og kvaddi Stjarnan heimavöll sinn til margra ára með stæl.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Stjarnan var allan tímann á undan að skora. Þegar sex mínútur voru eftir að leiknum náði Stjarnan fjögurra marka forskoti sem Valur náði ekki að brúa þrátt fyrir góðan endasprett.

Í Val vantaði þá Markús Mána Michaelsson og Erni Hrafn Arnarson vegna meiðsla og munar um minna. Valur verður klárlega með eitt af betri liðum vetrarins en liðið samanstendur af sama kjarna og varð Íslandsmeistari í vor.

Stjarnan mun gera tilkall til allra þeirra bikara sem er í boði enda liðið frábærlega mannað og mikil breidd í liðinu með tilkomu öflugra nýrra leikmanna. Einn þeirra Björgvin Hólmgeirsson sá til að bikarinn sem keppt var um í kvöld fór í Garðabæinn með frábærum síðari hálfleik þar sem hann skoraði sex mörk og lagði upp fjölmörg önnur fyrir félaga sína. Patrekur Jóhannesson var mjög ánægður með framlag Einars og hinna nýju leikmannanna.

„Ungu leikmennirnir, Björgvin og fleiri, eiga eftir að spila stórt hlutverk í okkar liði í vetur. Þetta eru öflugir leikmenn eins og sást í leiknum,“ sagði Patrekur. „Það er mjög gaman á æfingum. Það eru sprækir strákar í liðinu sem hafa mikinn metnað. Þeir vilja komast í landsliðið og atvinnumennsku. Maður finnur fyrir kraftinum og þess vegna tollir maður ennþá í þessu. Í fyrra vorum við með reyndari menn en núna erum við með spræka leikmenn og góða blöndu reyndra og ungra leikmanna,“ sagði Patrekur.

Mörk Vals: Fannar Friðgeirsson 7/1 (14/2), Arnór Gunnarsson 5 (8/1), Ingvar Árnason 2 (4), Elvar Friðgeirsson 4 (8/1), Anton Rúnarsson 3 (4), Hjalti Pálmason 3 (11), Kristján Karlsson 1 (2), Atli Rúnar Steinþórsson (1). Varin skot: Ólafur Gíslason 12, Pálmar Pétursson 1.

Mörk Stjörnunnar: Björgvin Hólmgeirsson 8 (15), Gunnar Ingi Jóhannsson 5 (5), Jón Heiðar Gunnarsson 4 (4), Hermann Björnsson 3 (4), Björn Friðriksson 2 (3), Patrekur Jóhannesson 2 (5), Heimir Örn Árnason 2 (6), Guðmundur Guðmundsson (2), Ragnar Helgason (1). Varin skot: Roland Valur Eradze 15/2, Hlynur Morthens 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×