Viðskipti innlent

Félag í eigu Finns á hlut í REI

Finnur Ingólfsson.
Finnur Ingólfsson. MYND/Pjetur

Finnur Ingólfsson, athafnamaður og fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, er stjórnarmaður í eignarhaldsfélaginu Landvar ehf. og annar eigenda þess. Landvar er til helminga í eigu Finns og Helga S. Guðmundssonar, fyrrverandi formanns fjármálanefndar Framsóknarflokksins og bankaráðs Seðlabankans. Landvar ehf. fer með 35 prósena hlut í VGK-Invest, sem aftur á um tveggja prósenta hlut í hinu nýstofnaða REI.

Helgi situr í stjórn VGK-Invest en Finnur er varamaður í stjórninni. Aðrir í stjórn VGK-Invest eru framkvæmdastjórar verkfræðistofunnar VGK-Hönnunar, Eyjólfur Árni Rafnsson og Runólfur K. Maack auk Kristins Hallgrímssonar, hæstaréttarlögmanns sem er skráður eigandi Þetu ehf. sem á 15 prósenta hlut í VGK-Invest.

Hlutafé í VGK-Invest er 400 milljónir króna og verðmæti hlutar VGK-Invest í hinu sameinaða félagi GGE og REI er talinn vera á bilinu 1,3 til 1,5 milljarðar króna.

Ekki náðist í Finn Ingólfssin eða Helga S. Guðmundsson við vinnslu fréttarinnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×