Innlent

Gefur lítið fyrir gagnrýnina

MYND/Valli

Iðnaðarráðherra gaf lítið fyrir gagnrýni á frumvarp um nýsköpunarsjóð á ársfundi Iðntæknistofnunar í morgun. Frumvarpið væri tilraun til að skera á aðskilnað milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins þegar kæmi að stuðningi við nýsköpun og atvinnuþróun.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra var meðal ræðumanna á ársfundi Iðntæknistofnunar í morgun. Iðntæknistofnun er einmitt ein þeirra stofnana sem sameinast í Nýsköpunarmiðstöð ef frumvarp ráðherra nær fram að ganga. Hinar stofnanirnar eru Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun.

Frumvarpið hefur sætt mikilli gagnrýni. Hvort tveggja stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt frumvarpið og umsagnir um það eru flestar neikvæðar.

Iðnaðarráðherra blés þó á gagnrýnina á ársfundinum í morgun. Valgerður sagði þetta eitt veigamesta framfaraspor sem stigið hefur verið í þágu nýsköpunar atvinnulífsins og kvað gagnrýni á það byggja á misskilningi, nefnilega þeim að í því fælust áform um sértækar aðgerðir til stuðnings landsbyggðinni. Svo væri hins vegar ekki.

Ráðherra sagði jafnframt að með frumvarpinu væri stigið það skref að sama stuðningskerfi væri fyrir nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Ekki væri gott að sitthvort kerfið væri fyrir sitthvorn landshlutann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×