Innlent

Löngu tímabær yfirlýsing

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fagnar því að forsætisráðherra taki í raun undir málflutning Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fagnar því að forsætisráðherra taki í raun undir málflutning Samfylkingarinnar. MYND/GVA

Það var tími til kominn segir formaður Samfylkingar um yfirlýsingu forsætisráðherra um að Ísland verði komið í Evrópusambandið árið 2015. Utanríkisráðherra vill ekkert tjá sig um yfirlýsingu forsætisráðherra.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagnar yfirlýsingu forsætisráðherra um að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu innan nokkurra ára. Hún segir að með þessu feti forsætisráðherra leið sem Samfylkingin hefur troðið.

"Mér finnst þessi yfirlýsing löngu tímabær," segir Ingibjörg Sólrún. Hún segir að það hafi verið kominn tími til að ráðherra í ríkisstjórninni lýsti þessu yfir og að það hafi verið löng og skrýtin þögn um Evrópumálin, ekki aðeins úr horni stjórnarflokkanna heldur einnig úr viðskiptalífinu.

Ingibjörg segir yfirlýsingu forsætisráðherra hljóta að hafa áhrif á samstarf stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið mjög harður gegn Evrópusambandinu og henni þætti ólíklegt að því stóra skipi sem Sjálfstæðisflokkurinn sé yrði snúið á svipstundu. Það væri þá heljarinnar U-beygja ef af yrði segir Ingibjörg Sólrún og kveðst sjá fyrir að stjórnarflokkarnir þurfi að ræða þessi mál sín í milli.

Ekki náðist í Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins, en aðstoðarkona hans sagði að Geir ætlaði sér ekki að tjá sig um ummæli forsætisráðherra. Ekki fékkst svar við því hvort forsætisráðherra hefði greint utanríkisráðherra frá efni ræðu sinnar áður en hann flutti hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×