Fastir pennar

Kyoto og Schelling

Ég hef tekið eftir því að sumir talsmenn umhverfisverndar á vinstri kantinum eru pínulítið órólegir þessa dagana. Það virðist allt ganga vel, fleiri og fleiri átta sig á mikilvægi þess að við verndum umhverfið og gætum þess að nýta það á skynsamlegan hátt. Reyndar er þessi hugsun inngróin okkur Íslendingum, við eigum svo mikið undir því að nýta náttúruauðlindir okkar á skynsaman og sjálfbæran hátt.

En hvað veldur þessum óróleika? Jú, óþægindin sem sumum finnst felast í því þegar þeim fjölgar sem eru á sama máli og þeir sjálfir. Gjarnan eru þetta menn og konur sem litlu hafa látið sig varða skoðanir fjöldans og talið það til marks um góðar gáfur að vera í minnihluta. Vinstrisinnaðir umhverfisverndarsinnar hafa af því áhyggjur að þeir séu að missa eitt besta baráttumálið sitt í hendurnar á öllum hinum flokkunum. Allir virðast orðnir grænir, meira að segja iðnaðarráðherrann. Þetta finnst þeim svona jafn pirrandi eins og sumum gömlum Chelsea aðdáendum finnst það heldur ódýrt að flykkjast til liðsins núna, loksins þegar eitthvað er farið að ganga eftir öll mögru árin. Og þá byrjar metingurinn, ég er meiri umhverfissinni en þú o.s.frv. En þannig er það nú bara, umhverfismál, nýting náttúrunnar og vernd hennar eru mál sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa látið og láta sig miklu varða og er það vel.





Kyoto

Kyoto-samningurinn á að taka á hnattrænum áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Engum vafa er undirorpið að veröldin er að hitna og hluta þeirrar hitnunar má rekja til athafna okkar mannanna. Vandinn sem vísindamenn hafa staðið frammi fyrir er að finna út hversu mikið má rekja til mannanna og hversu mikið til náttúrulegra sveiflna. Það er flókið mál, og ekki er langt síðan mikill fjöldi vísindamanna var þeirrar skoðunar að kólnandi loftslag benti til þess að ísöld væri á næsta leiti.

Vísindasamfélagið þarf því tíma til að greina mögulegar afleiðingar þessarar þróunar, til dæmis skiptir höfuðmáli hver áhrif hlýnandi loftslags verða á Golfstrauminn. En það er nauðsynlegt að hafa allan vara á og því eðlilegt að reynt sé að grípa til aðgerða til að hemja útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það eru klárlega efri mörk á því hversu mikið við getum leyft okkur að hleypa CO2 út í andrúmsloftið. Kyoto er tilraun til að leysa þann vanda. Því miður virðist margt benda til að sú tilraun mistakist.

Misjafn árangur

Það er áhugavert að skoða hvernig sumar þeirra þjóða sem hafa skrifað undir samninginn standa sig. Danir skuldbundu sig til að draga úr mengun sinni um 21% á samningstímanum en árið 2003 höfðu þeir aukið mengun sína um rúm 6%. Austurríkismenn eru litlu skárri, þeir höfðu á sama tíma aukið sína mengun um tæp 17% en eru skuldbundnir til að minnka hana um 13%. Svíar hafa staðið sig vel og reyndar Bretar líka, en ESB sem heild á langt í land með að ná að fylgja eftir ákvæðum Kyoto. En vandinn er sá að Kyoto samningurinn getur ekki með góðu móti þvingað ríki til að standa við skuldbindingar sínar. Það er reyndar leitun að alþjóðlegum samningi sem hefur náð að binda þannig fullvalda ríki að hægt sé að koma við refsingum ef ekki er staðið við ákvæði samningsins.

Sérstaklega er þetta flókið með loftslagið því ekki er um að ræða skýrt skilgreinda hagsmuni einstakra ríkja ef einhver brýtur reglurnar eins og gerist til dæmis hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Samkomulag um aðferð

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Thomas C. Schelling, hefur bent á að aðferðin sem Kyoto byggir á sé ekki líkleg til skila árangri vegna þess að þar er ekki samið um aðferð heldur fyrst og fremst markmið. Hann bendir á að nær sé að horfa til þess hvernig samstarfinu í NATO var komið á og einnig til þess hvernig Marshall-áætlunin var framkvæmd. Á síðari stigum Marshall-áætlunarinnar þurftu ríkin sem nutu aðstoðar að leggja fram áætlun um þarfir sínar og hvernig þau hygðust verja styrknum. Á grundvelli þessa þurftu ríkin að koma sér saman um hvernig ætti að úthluta hinum takmörkuðu gæðum sem fólust í Marshall-aðstoðinni.

Í samstarfinu í NATO þurftu ríkin að koma sér saman um hvað hvert og eitt þeirra gæti lagt af mörkum til samstarfsins. Sama gildir um mengunarkvótana, segir Schelling, þeir eru takmarkaðir og því betra að ríki komi sér saman um aðferðir til að ná árangri heldur en að setja bara töluleg markmið og láta þar við sitja. Hvert ríki þyrfti að leggja fram áætlun um hvernig það hygðist draga úr mengun og önnur ríki þyrftu að leggja blessun sína yfir þá áætlun. Þannig myndast gagnkvæmt samkomulag á milli ríkja sem líklegra er að haldi betur en Kyoto-samkomulagið sem við búum nú við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×