Innlent

Bjórbruggun úr íslensku byggi

Þó kornrækt hafi verið að byggjast upp jafnt og þétt hér á landi er það nýtilkomið að bændur séu í miklum mæli að þurrka kornið frekar en að súrsa það. Þurrkun kornsins er skilyrði þess að hægt sé að nota það til manneldis en fram að þessu hefur það nánast einvörðungu verið notað sem skepnufóður. Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur nýlega hafið framleiðslu á bjór sem bruggaður er úr íslensku byggi frá nokkrum bændum í Leirársveit í Borgarfirði. "Við byrjuðum með Egils Þorrabjór í janúar í ár og fengum mjög góðar viðtökur við honum," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Þorrabjórinn var alfarið bruggaður úr góðu íslensku byggi. Eftir það var sett af stað ný tegund, Egils Premium, sem kom á markað í vor. Andri segir þetta enn vera þróunarverkefni og að menn séu að prófa sig áfram. "Eiginleikar kornsins hér á landi eru aðrir þar sem veðurfarið er öðruvísi hér." Ölgerðin flytur því enn inn mestallt það bygg sem hún þarf til bjórframleiðslunnar og því verður ekki hætt í bráð. "En þetta er kostnaðarlega raunhæft í framtíðinni" segir Andri um það að íslenskt korn leysi hið innflutta af hólmi. Að sögn Andra er ennfremur aldrei að vita nema í framtíðinni opnist möguleikar á að nota íslenskt bygg í vodka- og viskíframleiðslu. Í Skagafirði hafa nokkrir einstaklingar tekið sig saman um að hefja á næst misserum bruggun í litlum stíl. "Hugmyndin er sú að opna lítið brugghús," segir Vilhjálmur Baldursson rekstrarhagfræðingur, sem er stjórnarformaður undirbúningsfélags um bruggunina. Fyrst um sinn verður byggið flutt inn. "En menn sjá fyrir sér að í framtíðinni verði notað íslenskt korn." Upphaf verkefnisins má rekja til þess að skagfirskir bændur fóru að þurrka kornframleiðsluna og vildu prófa sig áfram með að malta kornið, en verka þarf kornið sérstaklega fyrir bruggunar. Vilhjálmur segir íslenskt korn vera jafngott til bjórbruggunar og hið innflutta, og þó hár flutningskostnaður á korni geri það að verkum að íslenskt korn verði hagkvæmara í framtíðinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×