Jól

Þreyttir á að horfa hver á annan hálfberan

Pottverjar í Kópavogslaug héldu sinn árlega aðventufagnað á dögunum í húsakynnum laugarinnar með sameiginlegu hlaðborði og jólasögu. Þeir hafa hist í heita pottinum í yfir 20 ár en aðventustundin er sú tíunda í röðinni. "Við vorum orðnir svolítið þreyttir á því að horfa alltaf hver á annan hálfberan þannig að við ákváðum að hittast alklæddir og fannst alskemmtilegast að gera það með þessum hætti," segir Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri sem er einn Pottverja. Hann segir harðasta kjarnann í hópnum vera svona 12- 15 manns en alltaf sé einhver hreyfing, nokkrir séu látnir sem byrjuðu en aðrir hafi komið inn. Á fyrsta aðventufagnaðinn hafi mætt 15 en nú hafi þeir verið rúmlega 40 og þar séu makarnir með. Ásgeir segir góðmetið sem lagt sé á borð tengjast uppruna ýmissa Pottverja. "Ég er til dæmis með laufabrauð frá Húsavík. Einn leggur til hangikjöt af sauðum sínum í Króksfjarðarnesi. Við höfum fengið fugl norðan úr Málmey og harðfisk líka norðan úr landi en hákarlinn frá Vopnafirði. Þannig verður úr afar þjóðleg veisla. Auk þess er einn félaganna blómaskreytir og hann prýðir jafnan borðið með jólaskreytingum." Pottverjar setja sannarlega svip á starfsemi Kópavogslaugarinnar árið um kring og á aðventunni blanda þeir saman mat, menningu og líkamsrækt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×