Innlent

Hætta á hryðjuverkum lítil - aukin umsvif erlendra glæpahópa

MYND/Róbert

Hætta á hryðjuverkum hér á landi er lítil en umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa eru vaxandi hér á landi samkvæmt mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti matið á ríkisstjórnarfundi í morgun en það er fyrsta sinnar tegundar frá því að greiningardeildin kom til sögunnar í fyrra. Samkvæmt lögum ber greiningardeildinni að leggja mat á á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi og við matið voru nýttar skýrslur úr gagnabönkum lögreglu á Íslandi og upplýsingar, sem greiningardeild hefur aflað. Upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum greiningardeildar komu einnig að notum eins og segir í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættu á hryðjuverkum hér lága um þessar mundir en hins vegar er lögð þung áhersla á aukin umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa á Íslandi. Þá eru íslenskir afbrotamenn ekki taldir síður stórtækir í skipulegum afbrotum.

Búa ekki yfir sömu forvirku rannsóknarheimildum og nágrannar

Í skýrslunni er tekið fram, að við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi beri að hafa í huga, að lögregla á Íslandi búi ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þess málaflokks og megi því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot.

Möguleikar lögreglunnar hér til að fyrirbyggja hryðjuverk séu því því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þessu fylgi einnig að íslensk lögregla hafi mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga, sem kunni að fremja hryðjuverk.

 

Dómsmálaráðherra segir skýrsluna nýjan áfanga í löggæslustarfi hér á landi og að hún sé staðfesting á hinu mikilvæga starfi, sem unnið er af greiningardeild ríkislögreglustjóra.

















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×