Innlent

Varðstjórinn fór ekki offari í starfi - sýknaður í héraðsdómi

Mynd úr safni
Lögregluvarðstjóri á Selfossi var í dag sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands að hafa gerst brotlegur í starfi með því að hafa farið offari í framkvæmd lögreglustarfs og ekki gætt lögmætra aðferða sem stjórnandi lögregluaðgerðar.

Varðstjórinn var ákærður fyrir að hafa fyrirskipað lögreglumönnum að aka með handtekinn pilt, fæddan 1991, sem þá var undir áhrifum áfengis, frá mótssvæði í Galtalæk síðasta sumar, að Landsveit í Rangárþingi ytra, sem er í rúmlega fjögurra kílómetra fjarlægð, og skila hann eftir í námunda við sumarbústað.

Bankaði í sífellu á rúður lögreglubifreiðarinnar

Pilturinn knúði dyra í sumarbústaðnum í leit eftir aðstoð sem varð til þess að þeir sem þar dvöldust kölluðu eftir aðstoð lögreglunnar, sem var nýbúin að skilja hann eftir í óbyggðum samkvæmt ákæruskjali.

Í öðrum tölulið segir að lögreglan hafi þá mætt á vettvang og handtekið piltinn á ný. Þá var honum ekið frá fyrrnefndum sumarbústað áleiðis að Galtalæk, þar sem hann var skilinn eftir á Landvegi, um miðja vegu milli bústaðarins og Galtalækjar.

Í skýrslu lögreglunnar segir að pilturinn hafi komið upp að lögreglubifreið á hátíðarsvæði í Galtalæk og beðið um að fá að blása í áfengismæli. Lögreglumennirnir hafi tjáð honum að ekki væri ástæða til þess þar sem hann væri greinilega mjög ölvaður. Þá hafi pilturinn bankað í sífellu á rúður lögreglubifreiðarinnar. Honum hafi verið sagt að láta af háttseminni, yfirgefa vettvang og hætta að ónáða lögreglumenn að störfum.

Ekið 4 til 5 kílómetra í burtu og skilinn eftir

Hann var loks dreginn burt af lögreglumanni en þá komið strax aftur og haldið uppteknum hætti. Eftir ítrekaðar tilraunir til að fá piltinn til að láta af háttsemi inni var ákveðið að færa hann í lögreglu bifreiðina. „Hafi honum þá verið ekið um 4 - 5 kílómetra út fyrir svæðið þar sem honum hafi verið leyft að yfirgefa lögreglubifreiðina," segir í skýrslu lögreglunnar.

Varðstjórinn bar fyrir dómi að það hafi verið sín ákvörðun að aka með og skilja illa klæddan mann í annarlegu ástandi einan eftir á fáförnum þjóðvegi um miðja nóttt í rigningu. Hann hafi gefið út þá skipun að beitt yrði vægustu úrræðum með aðila sem yrði til vandræða á útisamkomunni, það er að segja að þeim yrði ekið brott af hátíðarsvæðinu. Varðstjórinn hafi metið það svo að það væri ekki forsvaranlegt, vegna mannfærðar lögreglu á svæðinu, að keyra menn á annað hundrað kílómetra í fangaklefa. Hann neitaði að hafa farið offari í starfi sínu við aðalmeðferð málsins.

Rétt ákvörðun varðstjórans

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ljóst sé af framburði lögreglu og vitna að pilturinn hafi verið mjög ölvaður og að honum hafi ekki verið búið nein hætta af því að vera skilinn eftir þar sem veður var gott og hann vel búinn auk þess sem hann átti ekki í vandræðum með að komast til baka á mótssvæðið. Mótssvæðið hafi verið sjáanlegt þar sem honum var sleppt auk þess sem nokkur umferð hafi verið á svæðinu á þessum tíma.

Þá segir að pilturinn hafi ekki gert athugasemdir við annan tölulið ákærunnar og hann hafi sagt sjálfur að hann hafi fengið far með vegfaranda til baka á svæðið og að hann hafi ekki lagt fram kæru í málinu. „er það því niðurstaða dómsins að ákærði (varðstjórinn) hafi tekið rétta ákvörðun við framkvæmd lögreglustarfans að þessu leyti og verður hann því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins,“ segir í niðurstöðu dómsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×