Innlent

Slökkviliðsmenn sennilega á leið í verkfall - „Menn tilbúnir í allt“

Slökkviliðsmenn ætla að boða til verkfalls í júlí
Slökkviliðsmenn ætla að boða til verkfalls í júlí
„Það leggst náttúrulega illa í mig að þurfa að taka þessar ákvarðanir," segir Sverrir Björn Björnsson, formaður landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, aðspurður um hvernig þær aðgerðir sambandsins um að boða til verkfalls leggist í hann.

Kjararáð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hélt atkvæðagreiðslu meðal slökkviliðsmanna 15. júní um það hvort að boða skuli til verkfalls. Sverrir segir að það stefni allt í að sambandið muni boða til verkfalls. Formlegar niðurstöður koma úr atkvæðagreiðslunni á mánudaginn því enn á eftir að telja nokkur atkvæði utan af landi.

Sverrir Björn segir að það hafi verið mjög góð kjörsókn í atkvæðagreiðslunni og þær niðurstöður sem liggja fyrir segja að það sé yfirgnæfandi vilji til að boða til verkfalls. „Menn virðast vera tilbúnir í allt," segir hann.

„Það leggst náttúrulega illa í mig að þurfa að taka þessar ákvarðanir, því ég er á því að það eigi að nota verkfallsheimildir „spari", þetta fer nú að fara verða „spari" fyrst það er ekki hægt að tala við þetta fólk," segir Sverrir en mál þeirra hafa farið tvisvar til sáttasemjara.

Slökkviliðsmenn eru öryggisstétt og þurfa að hlíta lágmarksviðbúnaði þrátt fyrir að boðað sé til verkfalls. „Við getum farið í verkfall, en þegar menn eru komnir í verkfall verður þjónustan ekki eins og hún er dagsdaglega."

Hann býst við því að boðað verði til verkfallsins í júlí. „En við skulum leyfa þessum tölum að koma upp úr kassanum en það virðist allt vera stefna í þetta."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×