Innlent

Lögreglumenn ættu að vera 700 en ekki 300

Boði Logason skrifar
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Alltof langt hefur verið gengið í niðurskurði á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglustjóri. Á svæðinu ættu að vera vel yfir sjö hundruð lögreglumenn en ekki þrjú hundruð, ef við berum okkur saman við frændur okkar Norðmenn.

Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom út í gær en í henni er að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi embættisins. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að skorið hafi verið alltof mikið niður hjá embættinu.

„Það hefur mikið verið skorið niður hjá lögreglunni, í sjálfu sér eins og hjá öðrum ríkisstofnunum. Ég tel að það hafi verið alltof langt gengið í beinum niðurskurði hjá okkur. Það hefur í sjálfsögðu áhrif á starfsemina," segir Stefán.

Hann segir að þrátt fyrir að tekist hafi að halda uppi grunn- og neyðarþjónustu sé ljóst að fækkun starfsmanna hafi haft veruleg áhrif á ýmsa þætti, og að málshraði í málum, sem ekki teljist til brýnustu forgangsmála, sé óviðunandi.

„Við höfum ekki getað haldið úti öllu því eftirliti sem við hefðum viljað og teljum vera þörf á. Við reynum eins og kostur er að skera þannig niður að það hafi ekki áhrif á öryggi eða grunnþjónustuna. En við erum komin ansi nálægt þeim mörkum," segir hann.

Hvaða mál eru það sem teljast ekki til brýnustu forgangsmála?

„Þau mál sem eru í hæstum forgangi eru kynferðisbrot, alvarlega ofbeldisbrot, innbrot á heimili. Það eru mál sem við reynum að taka mjög föstum tökum og hraða rannsókn og málsmeðferð á eins og kostur er. Flest önnur mál fara aftar í forgangsröðina," segir Stefán.

Þá segir Stefán mikill munur sé á fjárframlögum til löggæslu í Noregi og Íslandi.

„Ég held að það sé mikilvægt að menn velti því fyrir sér í heildarsamhenginu hvar löggæslan á Íslandi er stödd. Ef við berum okkur saman við okkur næstu nágranna, sem eru með mjög svipaða löggjöf og samsetningu á samfélagi í Noregi. Þá ættu lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu ekki að vera um þrjú hundruð, eins og þeir eru í dag. Þeir ættu að vera vel yfir sjö hundruð - ef við ættum bara að vera á pari hlutfallslega í Osló og nágrenni," segir Stefán.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×