Innlent

Kynfæragötun aldrei vinsælli

Hjónin Svanur Guðrúnarson tattúmeistari og Seselía Guðmundsdóttir gatari á stofu sinni Tattoo og skarti á Hverfisgötu, þangað sem margir sækja sér innblástur og láta drauma sína rætast.
Hjónin Svanur Guðrúnarson tattúmeistari og Seselía Guðmundsdóttir gatari á stofu sinni Tattoo og skarti á Hverfisgötu, þangað sem margir sækja sér innblástur og láta drauma sína rætast. Fréttablaðið/GVA
Kynfæragötun tröllríður nú tískustraumum í líkamsgötun, en ávinningurinn af henni ku felast í meiri ánægju kvenna í ástalífinu.

„Stelpur elska naflagöt, og gat í tungu er enn hæstmóðins, en langmest aukning er í kynfæragötun kvenna. Þá er settur lóðréttur pinni í gat ofan við snípinn sem eykur kynferðislegan unað," segir Seselía Guðmundsdóttir, gatari hjá Tattoo og skarti á Hverfisgötu, spurð um helstu tískustrauma í líkamsgötun.

„Í Svíþjóð og Danmörku er varla neitt að gera lengur í götun en hér heldur eftirspurn áfram sem aldrei fyrr enda Íslendingar sjálfstæðir og gera það sem þeir vilja," segir Seselía sem telur klámvæðingu síðustu missera líklegustu skýringuna á stóraukinni kynfæragötun, en aukning er 800 prósent milli ára.

„Kynfæragötun hefur sótt mjög í sig veðrið á aðeins einu ári, en í fyrra gataði ég tvær konur í mánuði miðað við sextán konur í mánuði nú. Flestar eru á aldrinum 18 til 40 ára og með öllu ófeimnar, en ég spyr þær aldrei um ástæður því enn viðurkenna fæstar konur að horfa á klám.

Hins vegar þykir mér líklegt að klámstjörnur séu margar gataðar og þaðan sé tískan að mestu upprunnin," segir Seselía. „Götunin sjálf tekur ekki nema tíu mínútur og engin hætta á ferðum ef farið er eftir leiðbeiningum um umhirðu eftir á, en það er eins með götun og tattú að sniðgangi fólk allar reglur er voðinn vís, og sá sem það gerir einu sinni gerir það ekki aftur," segir Seselía.

Bæði Fjölnir Bragason tattúmeistari og Berglind Rós Ragnarsdóttir, gatari á Íslenzku húðflúrstofunni við Hverfisgötu, staðfesta orð Seselíu.

„Kynfæragötun er mun algengari en fólk heldur og eftirspurnin mikil, en aukning er mest hjá yngri konum," segir Berglind. „Oftast er settur boginn pinni eða hringur í gatið, og alltaf í því augnamiði að auka unað. Flestar eru ófeimnar, en nefna þó að þær hefðu frekar hikað með kynfæragötun ef karlmaður sæi um verkið. Að mínu áliti hefur klámvæðingin gert konur meðvitaðri um þennan möguleika í kynlífinu, en vitaskuld spyrst þetta líka út meðal kvenna og smitar út frá sér," segir Berglind.

Önnur tíska sem nú nær aukinni útbreiðslu í líkamsgötun eru svokölluð "tunnels" eða göng sem eru stór göt í eyrnasnepla þar sem komið er fyrir hvers kyns hringjum og hnöppum.

„"Tunnels" er að færast niður í aldri og foreldrar eru ekkert voðalega sáttir, en þetta er aðal eyrnatískan í dag og að verða jafn vinsælt hjá báðum kynjum. Ferlið tekur um tvo mánuði og er þá komið á tveggja vikna fresti til að stækka gatið. Tískan kemur upprunalega frá Lundúnum og byrjaði sem pönk, en hér á Íslandi fylgir hún tattú-menningu og rokki, og gefur í skyn svolitla uppreisn þegar reynt er á þolrifin hjá afa og ömmu," segir Seselía og brosir í kampinn.

„Ég geri þó aldrei "tunnels" nema hringja fyrst í mömmu viðkomandi til að fá leyfi því eyrnasnepill verður aldrei samur í útliti ef farið er út í víðari göng en 8 millimetra, en dæmi er um að fólk hafi fengið sér 30 millimetra "tunnels"." - þlg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×