Tár, bros og takkasnúningur: GusGus á tveggja klukkutíma trúnó

Hljómsveitin GusGus kom í heimsókn í Funkþáttinn í tveggja tíma hyldjúpt viðtal um nýju plötuna Mobile Home, nýjan meðlim í hljómsveitinni, endurkomu eins af stofnendum hljómsveitarinnar, og hlutinn sem er erfiðast að segja. Þeir útskýra af hverju platan er þjóðlagaplata, en samt smá reggí og kántri en eiginlega allt 80s popp, en samt alveg fullkomlega gusgus í gegn. Platan sé þeirra heilstæðasti hugmyndagripur, hvernig hún gerist í raun í litlu þorpi á jaðri melrakasléttu í dystópískri nærframtíð þar sem fólk hefur allt sem það ásælist nema tilgang og tengsl. Þetta er sjöunda plötuviðtal þerra í Funkþættinum. Þau hafa öll verið yfirgripsmikil, fjallað um allskonar fleti sköpunar. Hljómsveitin er einstök, raunveruleg hljómsveit í raftónlist, við köfum í það hvernig það glæðir hljómsveitina lífi umfram vilja einstaklinganna. Spurningin "hver er þá trommarinn" kallar fram áhugaverð svör. Þetta er viðtal fyrir alla sem elska gusgus, alla sem hafa verið í hljómsveit, alla sem skapa og hugsa um sköpun. Daníel Ágúst og Biggi Veira opna sig, og opna filterana á synthunum um leið, allt leiðir að risi, enda er þetta gusgus. Að hlusta á hljómsveitina tala um hugarheimana og hvaðan þetta kemur gefur svo tónlistinni aukna dýpt. Platan kom út á miðnætti, við lok útsendingar, á öllum betri streymisveitum og stafrænum plötubúðum.

3217
1:59:42

Vinsælt í flokknum Funkþátturinn