Upp­gjör og við­töl: Stjarnan-Fylkir 2-1 | Stjörnukonur að komast í gang

Dagur Lárusson skrifar
Stjarnan - Víkingur Besta deild kvenna vor 2024
Stjarnan - Víkingur Besta deild kvenna vor 2024

Stjörnukonur skoruðu tvö mörk í fyrri hálfeik og unnu 2-1 sigur á nýliðum Fylkis í Bestu deild kvenna. Þetta var annar deildarsigur liðsins í röð og Stjörnukonur eru að komast í gang eftir erfiða byrjun.

Það var jafnræði með liðunum framan af leik en eftir því sem leið á fóru þær bláklæddu að sækja í sig veðrið. Á 25.mínútu fékk Hulda Hrund frábæra sendingu inn fyrir vörn Fylkis, tók boltann fram hjá Tinnu Brá í marki Fylkis og kom boltanum í netið. Fyrsta markið komið.

Það leit út fyrir svo að staðan yrði 1-0 í hálfleik en Stjarnan fékk þá hornspyrnu. Mikill darraðadans myndaðist eftir hornspyrnuna og barst boltinn til Hönnuh Sharts inn á markteig sem þrumaði boltanum í netið. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik.

Fylkisliðið mætti mikið ákveðnara til leiks í seinni hálfleikinn og náði að minnka muninn á 71.mínútu. Þá tók Eva Rut aukaspyrnu rétt fyrir utan teig vinstra megin og sneri boltanum laglega yfir vegginn og endaði boltinn í netinu. Glæsileg aukaspyrna og staðan orðin 2-1.

Fylkisstelpur reyndu hvað þær gátu að jafna metin og fengu ágæt færi eftir þetta en boltinn vildi ekki inn og lokatölur því 2-1.

Atvik leiksins

Atvik leiksins þyrfti að vera markið hjá Hannah Sharts í blálokin í fyrri hálfleik. Það breytti seinni hálfleiknum algjörlega fyrir bæði lið.

Stjörnur og skúrkar

Hulda Hrund Arnarsdóttir var frábær í liði Stjörnunnar og átti þónokkur færi og hefði klárlega getað skorað fleiri mörk. Það voru engir skúrkar í dag enda virtust bæði lið við að gefa allt í leikinn.

Dómararnir

Dómararnir voru með mjög góð völd á leiknum og ekkert við þá að sakast.

Stemningin og umgjörð

Stjarnan á hrós skilið fyrir að græja Miðgarð sem keppnisvöll aðeins klukkutímum fyrir leik. Blaðamannaðstaðan var græjuð rétt fyrir leik og það voru engin vandamál, bara lausnir, vel gert! Hvað stemninguna varðar var hún ágæt, en hún bar þess svolítið merki að það væri föstudagskvöld og vont veður úti.

Það er stígandi og mikil bæting í leik okkar

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður eftir sigur síns liðs gegn Fylki í kvöld.

„Frammistaðan var nokkuð góð og svolítið í takti við það sem við höfum verið að gera undanfarið. Það er stígandi í okkar leik og bæting í leik okkar,“ byrjaði Kristján að segja.

„En það eru samt sem áður ákveðnir hlutir sem við gerum aftur sem við viljum laga. Við komumst yfir, náum öðru markinu inn og eigum að ná þriðja inn en gerum það ekki. Eftir það erum við klaufar að fá á okkur mark og eftir það vorum við ekki með góða stjórn á leiknum,“ hélt Kristján áfram að segja.

Kristján vill meina að liðið hans hafi verið að flýta sér of mikið undir lokin.

„Já, við vorum að flýta okkur of mikið eða það var allaveganna einhver streyta í þessu hjá okkur og kannski smá þreyta.“

Kristján útskýrði síðan aðeins hvað hann meinar þegar hann talar um stíganda í hans liði.

„Mér finnst varnarleikurinn búinn að batna gríðarlega eftir að við breyttum áherslunum aðeins eftir leikinn í Kópavogi. Eftir þann leik finnst mér seinustu leikir og þessi hafa verið mjög góðir hvað það varðar. Við erum gríðarlega gott lið, við erum að verjast vel og síðan erum við að búa til mikið af færum, en við náum bara ekki að nýta þau öll,“ endaði Kristján á að segja.

Alltaf vont að tapa fótboltaleik

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis. vísir / anton brink

„Það er alltaf vont að tapa fótboltaleik og við erum ekki sátt með það eðlilega en frammistaðan hjá stelpunum bara til fyrirmyndar,“ byrjaði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, að segja eftir leik.

„Við vorum að reyna og lögðum allt í þetta fengum alveg tækifæri til þess að jafna og fá eitthvað út úr leiknum en við náðum því ekki, því miður,“ hélt Gunnar áfram að segja.

Gunnar talaði aðeins um muninn á hálfleikunum tveimur hjá sínu liði.

„Í seinni hálfleiknum voru þær komnar 2-0 yfir og þær fóru þá kannski að bakka aðeins meira og við náðum að opna þær aðeins meira og þá sérstaklega þegar Marija kom inná. Hún er auðvitað mjög góð á boltann og skapaði mikinn usla og hættu. Síðan var ákafinn í okkur, okkur langaði mikið í mark og okkur langaði að jafna leikinn.“ 

Gunnar talaði aðeins um það sem hann vildi sjá betur í næsta leik.

„Við þurfum kannski að vera aðeins grimmari fyrir framan markið, það er kannski það sem við þurfum að bæta. Við þurfum að vera grimmari og skora meira og síðan kannski að skerpa aðeins á varnarleiknum sem við höfum nú aðeins verið að vinna í á æfingarsvæðinu. Það er í rauninni bara svona þessu litlu hlutir,“ endaði Gunnar Magnús Jónsson að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira