Upp­gjörið og við­töl: Fram 1-1 ÍA | Dýr­keypt klikk í lokin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Skagamenn nældu í stig í Úlfarsárdal.
Skagamenn nældu í stig í Úlfarsárdal. Vísir/Hulda Margrét

Fram og ÍA gerðu 1-1 jafntefli í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Þrátt fyrir markaleysi var fyrri hálfleikurinn nokkuð fjörugur. Framarar voru beittari en Skagamenn meira með boltann. Hinrik Harðarson fékk besta færi hálfleiksins þegar hann slapp í gegn snemma leiks en lét Ólaf Íshólm, markvörð Fram, verja frá sér.

Fram fékk góðar stöður og þónokkur hálffæri en þegar Marko Vardic veitti liðinu 4 á 3 stöðu á silfurfati undir lok hálfleiksins áttu Framarar að gera betur. Skagamenn áttu svo skot í stöng í blálok hálfleiksins en staðan verðskuldað jöfn í hálfleik, 0-0.

Eftir nokkur færi enn tókst Guðmundi Magnússyni loks að brjóta ísinn fyrir Fram á 65 mínútu þegar Framarar voru fljótir að hugsa, tóku innkast snöggt og Fred fann Guðmund á teignum.

Við tóku tíu mínútur af engu þar til geggjuð fyrirgjöf Guðfinns Þórs Leóssonar fann Viktor Jónsson á fjærstönginni en skallaði boltann í netið. Staðan 1-1.

Bæði lið reyndu að sækja sigurmarkið og Skagamenn höfðu hætt heldur mörgum fram í lok uppbótartímans þegar skyndisókn Fram lauk með frábærri fyrirgjöf Alex Freys Elíssonar sem fann Viktor Bjarka Daðason einn og óvaldaðan á fjærstöng. Viktor kom boltanum á markið en Árni Marínó Einarsson varði stórkostlega til að tryggja Skagamönnum stig.

Atvik leiksins

Varsla Árna Marinós í lokin. Án efa.

Stjörnur og skúrkar

Fáir sem stóðu sérstaklega upp úr og sömuleiðis enginn sem hægt er að setja mikið út á. Marko Vardic var nálægt því að gefa mark undir lok fyrri hálfleiks og sat eftir snemma í þeim síðari þegar félagi hans í vörninni, Tobias Sandberg, steig upp og kostaði næstum því mark.

Magnús Þórðarson var beittur í framlínu Framara og ber að hrósa fyrir sinn leik. Árni Marinó fær að vera maður leiksins eftir vörsluna í lokin en hann varði oftar vel.

Dómarinn

Sigurður Hjörtur Þrastarson komst vel frá verki. Engir vafadómar til að tala um, leikurinn rann vel og lítið út á dómgæsluna að setja.

Stemning og umgjörð

787 hræður í stúkunni, nokkuð vel mætt og þétt setið Fram-megin.

Það var fjölmennt í VIP-aðstöðu Fram fyrir leik og í hálfleik. Guðmundur Torfason, Snorri Már Skúlason, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Stefán Pálsson, Skúli Helgason, Valtýr Björn Valtýsson, Birkir Kristinsson, Sveinn Andri Sveinsson og Guðmundur B. Ólafsson á meðal gesta.

„Stórkostleg markvarsla“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var stórkostleg markvarsla,“ segir Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir leik og á þar við atvikið í lokin.

„Ég er gríðarlega ánægður með mína menn. Það hefur engu liði tekist að koma til baka eftir að Fram hefur komist yfir í leik í sumar. Ég er ánægður með það. Við áttum möguleika á því að tryggja okkur sigur en svo bjargar Árni frábærlega stigi fyrir okkur í leiknum. Í heildina held ég að þetta hafi verið sanngjörn niðurstaða í stórkostlegum leik,“ segir Jón Þór enn fremur.

Það vakti athygli fréttaritara að ef einhver var súrari undir lokin af þjálfurunum tveimur var það Jón Þór. Hann var æfur yfir því að Skagamenn skyldu gefa Frömurum þennan séns en gerði þó minna úr því í samtali eftir leik.

„Mér fannst í síðustu tveimur skyndisóknunum hjá þeim við vera fullopnir. Ég hefði viljað fá aðeins meiri aga í þeim augnablikum en á sama tíma vorum við að reyna að sækja stigin þrjú. Því get ég ekki verið of harður við mína menn en þetta var fulltæpt í lokin.“

Arnór Smárason fór af velli í hálfleik og Rúnar Már Sigurjónsson, sem var að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik, á 55. mínútu. Þeir eru að safna leikformi eftir meiðsli.

„Það er sama. Þeir eru báðir félagarnir að koma sér í gang, báðir búnir að glíma við meiðsli í byrjun móts. Við viljum passa upp á þá og fá sem mest út úr þeim í sumar. Skref fyrir skref eru þeir að koma til baka og vonandi stutt í að þeir komist báðir í toppform,“ segir Jón Þór.

„Ótrúlegt færi“

Guðmundur Magnússon FramVísir/Hulda Margrét

Guðmundur Magnússon skoraði þriðja leikinn í röð fyrir Fram í kvöld en fékk þó tvö fín færi til að skora þar á undan. Hann setur ekki út á félaga sinn, Viktor Bjarka Daðason, vegna færisins í lokin. Hann hafi gert allt rétt.

„Þetta var ótrúlegt færi. Góður bolti frá Alex en þegar menn eru ofan í hvorum öðrum þarna við marklínu er erfitt að reyna að setja hann eitthvað til hliðar. Viktor var líklega að hugsa koma snertingu á hann en markvörðurinn gerði vel,“ segir Guðmundur.

„Við fengum alveg fleiri færi, þeir voru öflugir í föstum leikatriðum en mér fannst þeir ekki skapa mikið. Svo eru þeir bara með Viktor þarna frammi,“ segir Guðmundur og á þar við Viktor Jónsson sem skoraði laglegt mark til að tryggja Skagamönnum stig. Jafntefli sé þá að líkindum sanngjörn úrslit.

„Ætli það ekki. Þó maður hefði viljað taka þrjú stig, mögulega áttum við hættulegri færi. Þeir voru öflugir. Stig er gott á bæði lið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira