Innlent

Hald lagt á stóran há­talara eftir í­trekað ó­næði síðustu nætur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maðurinn fór um með látum og truflaði svefn íbúa á svæðinu.
Maðurinn fór um með látum og truflaði svefn íbúa á svæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af einstaklingi í nótt sem ku hafa farið um miðborgina síðustu nætur með stóran hátalara, spilað háværa tónlist og truflað nætursvefn íbúa.

Í tilkynningu frá lögreglu um verkefni næturinnar segir að eftir að hafa fengið ítrekuð tækifæri til að láta af hegðun sinni, án árangurs, hafi hald verið lagt á hátalarann og á viðkomandi kæru yfir höfði sér.

Lögreglu barst einnig tilkynning í gærkvöldi um mjög ölvaðan einstakling í sundlaug sem vildi ekki fara að fyrirmælum starfsmanna. Óskuðu þeir eftir því að honum yrði vísað úr lauginni og var orðið við því.

Tilkynningar bárust um þjófnað í verslun í miðborginni, skemmdir á útidyrahurð í fjölbýlishúsi og umferðarslys í póstnúmerinu 108, þar sem ekið var á einstakling á rafhlaupahjóli.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Garðabæ og reiðhjólaslys í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×