Erlent

„Myndi 100 prósent láta svæðin aftur í hendur Úkraínu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
DeSantis nýtur mikils stuðnings sem ríkisstjóri Flórída, þar sem efnahagsástandið er mun betra en víða annars staðar í Bandaríkjunum.
DeSantis nýtur mikils stuðnings sem ríkisstjóri Flórída, þar sem efnahagsástandið er mun betra en víða annars staðar í Bandaríkjunum. epa/Caroline Brehman

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída og mögulegur forsetaframbjóðandi, segir orð sín um stríðið í Úkraínu hafa verið misskilin og að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé sannarlega stríðsglæpamaður.

Ummælin lét DeSantis falla í viðtali við sjónvarpsmanninn Piers Morgan, sem spurði ríkisstjórann meðal annars út í þau orð sín að stríðið í Úkraínu væri í raun deilur um yfirráð yfir landsvæði.

DeSantis sagðist aðeins hafa átt við Donbas og Krímskaga, þar sem margir Rússar væru búsettir. Það flækti málin og það væri það sem hann hefði verið að vísa til.

„Það var ekki það að ég teldi Rússa eiga rétt á svæðinu,“ bætti hann við og kallaði réttlætingar Rússa „vitleysu“. „Ef ég gæti smellt fingrunum þá myndi ég 100 prósent láta svæðin aftur í hendur Úkraínu.“

DeSantis er sagður munu verða helsti keppinautur Donald Trump í kapphlaupinu um útnefningu forsetaefnis Repúblikanaflokksins. Hann hefur þó lítið vilja tjá sig um mögulegt framboð og er aðeins nýlega farinn að svara langvarandi árásum forsetans fyrrverandi en með óbeinum hætti.

Skoðanakannanir sýna að forskot Trump á DeSantis fer vaxandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×