Erlent

Þrír skotnir til bana í háskóla í Michigan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Háskólalögreglan sendi út í gærkvöldi þessar myndir úr öryggismyndavélum sem sýna árásarmanninn.
Háskólalögreglan sendi út í gærkvöldi þessar myndir úr öryggismyndavélum sem sýna árásarmanninn. MSU Police and Public Safety/AP

Að minnsta kosti þrír létust og fimm særðust hið minnsta þegar byssumaður hóf skothríð á svæði Ríkisháskólans í Michigan (e. Michigan State University (MSU)) í East Lansing í Bandaríkjunum í nótt.

Árásarmaðurinn lét sig svo hverfa en lögregla fann hann látinn utan háskólasvæðisins síðar um kvöldið og virðist hann hafa framið sjálfsvíg. 

Skotum var hleypt af á tveimur stöðum á háskólasvæðinu og skipaði háskólalögreglan nemendum og kennurum að leita tafarlaust skjóls.

Eftir mikla leit sem tók nokkra klukkutíma bárust þær fregnir að skotmaðurinn væri fundinn utan svæðisins. Ástæða árásarinnar er enn óljós og er lögreglan enn að reyna að bera kennsl á morðingjann. Lögregla hafði fyrr um kvöldið gefið út lýsingu á honum þar sem sagði að hann væri lágvaxinn og með grímu.

Allri kennslu við skólann, sem er með um fimmtíu þúsund nemendur, hefur verið aflýst næstu tvo sólarhringana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×