Innlent

Átta ára fangelsi fyrir skotárás með þrí­víddar­prentaðri byssu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá vettvangi árásarinnar aðfaranótt sunnudagsins 13. febrúar.
Frá vettvangi árásarinnar aðfaranótt sunnudagsins 13. febrúar. Aðsend

Ingólfur Kjartansson, tvítugur karlmaður, var í nóvember á síðasta ári dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að hafa ætlað sér að bana karlmanni í bílastæðahúsi við Bergstaðastræti. Saksóknari krafðist tíu ára dóms. 

Þetta var niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur í dómi sem Vísir hefur undir höndum. 

Ingólfur réðist að karlmanni með þrívíddarprentaðri byssu skömmu eftir miðnætti aðfararnótt sunnudags 13. febrúar 2022 í bílastæðahúsi við Bergstaðastræti í Reykjavík. Var Ingólfur dæmdur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa skotið mann með byssunni á brjóstkassa hægra megin, rétt fyrir ofan geirvörtu. Fór skotið í gegnum hægra lunga og hlaut maðurinn opið sár á brjóstkassa, áverkablæðingu í brjósthol, rifbrot og áverkaloftbrjóst.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Ingólfur hafi skotið að minnsta kosti þremur skotum til viðbótar úr byssunni sem hæfðu brotaþola ekki. Við meðferð málsins fyrir dómi sagði Ingólfur þá brotaþola vera vini í dag. 

Árásin átti sér stað skömmu eftir að Ingólfur losnaði úr fangelsi. Hann hlaut árið 2021 tveggja ára fangelsisdóm fyrir brot gegn barnaverndarlögum, líkamsáras og rán, ásamt vopnalaga- og fíkniefnalagabrotum.

Í læknisvottorði brotaþola segir að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða og að án meðferðar sé hugsanlegt að áverkarnir hefðu leitt til dauða hans. Fram kemur að nokkur góðar líkur séu á bata en hugsanlegt sé að hann verði með varnaleg lungnaeinkenni eða verki frá stoðkerfi eftir rifbrotin. 

Ingólfur játaði brot sín og var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola 3,5 milljónir í miskabætur. 

Fjallað var um skotárásina í fréttum Stöðvar 2 í febrúar á síðasta ári þar sem sjá mátti för eftir byssukúlur á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×