Innlent

Útlendingafrumvarpið eina þingmálið á dagskrá

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Alþingi kemur saman á ný í dag og hefst þingfundur klukkan 15. Á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og önnur umræða um útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.

Umræðum um frumvarpið var frestað fyrir jól en það er afar umdeilt og gera má ráð fyrir löngum fundum um málið áður en niðurstaða liggur fyrir.

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segist í samtali við Morgunblaðið gera ráð fyrir að annarri umræðu um málið verði lokið áður en önnur mál verða tekin á dagskrá. 

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir málið kalla á miklar umræður og að ekki sé ólíklegt að þingfundir muni vara fram á kvöld næstu daga. „Það eru í rauninni vonbrigði að meirihlutinn hafi ekki dregið [málið] til baka. Þetta mál er illa unnið,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið.

Fjöldi ungliðahreyfinga sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem frumvarpinu er mótmælt og skorað á dómsmálaráðherra og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að draga það til baka. 

Þá er lýst yfir stuðningi við umsagnir Amnesty International, Rauða krossins, Unicef, UN Women og Þroskahjálpar og fleiri samtaka, þar sem gerðar voru verulegar athugasemdir við frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×