Innlent

Öku­maður fluttur með þyrlu eftir bíl­veltu á Stein­gríms­fjarðar­heiði

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti ökumann sem velti bíl sínum á Steingrímsfjarðarheiði á Vestfjörðum nú síðdegis til Reykjavíkur. Maðurinn var einn í bílnum.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að tilkynning um slys á norðanverðri Steingrímsfjarðarheiði hafi borist fyrir klukkan 17:00. Heiðin liggur milli Steingrímsfjarðar og Ísafjarðardjúps.

Viðbragðsaðilar fóru á vettvang en um klukkan 19:00 var þyrla Gæslunnar komin til að flytja manninn til Reykjavíkur. Nánari upplýsingar lágu ekki fyrir þegar færsla lögreglunnar birtist.

Veginum var ekki lokað vegna slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×