Innlent

Tveir slasaðir eftir sprengingu í snyrti­vöru­­­verk­­­smiðju á Greni­­­vík

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Verið er að flytja starfsmennina suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi.
Verið er að flytja starfsmennina suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Vísir/Tryggvi.

Tveir starfsmenn snyrtivöruverksmiðju slösuðust í eldsvoða sem upp kom í iðnaðarhúsnæði á Grenivík. Verið er að flytja starfsmennina með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur. 

Slökkvistarfi er lokið á vettvangi, að því er fram kemur í Facebook-færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Mbl.is greinir frá því að sprenging hafi orðið í húsnæði snyrtivörufyrirtækisins Pharmarctica.

Varðstjóri hjá slökkviliði Akureyrar segir í samtali við fréttastofu að viðbúnaður hafi verið töluverður og vinna stendur enn yfir á vettvangi.

„Þetta er snyrtivöruverskmiðja, það kviknar eldur einhvers staðar í framleiðslunni og tveir starfsmenn slasast,“ segir varðstjórinn. Hann bætir við að meiri eldur hafi brotist út í kjölfarið en vel hafi gengið að slökkva hann.

Hann segir að verið sé að flytja slösuðu starfsmennina til Reykjavíkur með sjúkraflugi en óvíst er hve alvarleg meiðsl þeirra eru að svo stöddu. 

Fimm aðrir starfsmenn voru í húsinu þegar sprengingin varð og unnið er að því að veita þeim áfallahjálp, segir í nýrri færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Tilkynning um sprenginguna barst klukkan 15.11 en í húsinu fer fram framleiðsla á snyrtivörum, fæðubótarefnum og fleiri vörum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×