Innlent

Starfsemi Vesturbæjarlaugar lömuð vegna faraldursins

Jakob Bjarnar skrifar
Vesturbæjarlaug séð úr lofti í gegnum linsu Villa ljósmyndara.
Vesturbæjarlaug séð úr lofti í gegnum linsu Villa ljósmyndara. vísir/vilhelm

Vesturbæjarlaug lokar klukkan tvö í dag vegna mönnunarvanda.

Á vef Vesturbæjarlaugar segir að nú stefni allt í að loka þurfi lauginni klukkan 14 í dag, 3. janúar. Því miður. „Við opnum galvösk í fyrramálið á sama tíma og venjulega, 06:30. Við hlökkum til að sjá ykkur þá!“

Ekki kemur fram í tilkynningunni hver ástæðan er en við eftirgrennslan kemur á daginn að það er vegna mönnunarvanda.

„Það eru svo margir starfsmanna í ýmist einangrun eða sóttkví þannig að okkur hefur ekki tekist að manna nauðsynlegar stöður,“ segir sá starfsmaður sem fyrir svörum var í afgreiðslunni.

Að sögn starfsmanns eru fjórskiptar vaktir, fimm á vakt og er nú víðtæk sóttkví og einangrun vegna smita í samfélaginu farin að taka sinn toll þar sem víðar. Ekki hefur verið mikið að gera um hátíðirnar en þar eru samkvæmt reglugerð tveggja metra regla og aðeins leyfilegt að hleypa inn 75 prósentum gesta miðað við getu að öllu jöfnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×