Innlent

„Auðvitað ekki hægt að tapa“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bjarni var sigurreifur í ræðu sinni á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins eftir að fyrstu tölur voru kynntar.
Bjarni var sigurreifur í ræðu sinni á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins eftir að fyrstu tölur voru kynntar. Vísir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var sigurreifur í ræðu sem hann hélt yfir flokksmönnum sínum á kosningavöku flokksins á Hótel Nordica, eftir að fyrstu tölur kvöldsins bárust úr Norðvesturkjördæmi.

Flokkurinn fékk þar 22,7 prósent talinna atkvæða, sem voru 5.932.

„Ótrúleg samstaða, ótrúleg vinna, ótrúleg samheldni alla baráttuna frá upphafi til enda og það var reyndar hér á þessu sviði sem við mörkuðum fyrstu skref baráttunar á flokksráðs- og formannafundum, meitluðum stefnuna og fórum héðan út í baráttuna,“ sagði Bjarni og hvatti flokksmenn áfram. 

Ekki annað væri hægt en að líta björtum augum á nóttina með þá öflugu sveit sem myndaði flokkinn og framboðslista hans. 

„Með slíka sveit, með þessa stefnu, með þá bjartsýni sem fylgir okkar slagorði, „Landi tækifæranna,“ þá er auðvitað ekki hægt að tapa,“ sagði Bjarni bjartsýnn. 

Hann segir kvöldið tíma til að fagna vel skiluðu dagsverki. 

„Fyrstu tölur vekja okkur von um bjartsýni inn í nóttina og ég segi bara: Hafið gaman! Þetta er lýðræðisveisla, við Sjálfstæðismenn höfum sýnt það í verki aftur og aftur og á því byggir okkar starf. Við elskum lýðræðið, við fögnum kosningunum og förum sigurviss inn í nóttina!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×