Erlent

Fjórir handteknir vegna morðs á norðurírskri blaðakonu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona heldur á útfararskrá þegar Lyra McKee var lögð til hinstu hvílu í Belfast í apríl árið 2019.
Kona heldur á útfararskrá þegar Lyra McKee var lögð til hinstu hvílu í Belfast í apríl árið 2019. Vísir/EPA

Lögreglan á Norður-Írlandi handtók fjóra karlmenn í tengslum við morðið á blaðakonunni Lyru McKee í morgun. McKee var skotin til bana þegar hún fylgdist með óeirðum í Londonderry árið 2019.

Karlarnir sem voru handteknir eru sagðir 19, 20, 21 og 33 ára gamlir. Þeir voru handteknir á grundvelli breskra hryðjuverkalaga, að sögn lögreglu. Handtökurnar eru sagðar binda endahnút á tveggja ára langa rannsókn á morðinu á McKee og aðdraganda þess.

Einn karlmaður var ákærður fyrir morðið í fyrra og annar fyrir óeirðir og tengd brot nóttina sem McKee var myrt, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Nýi írski lýðveldisherinn (NIRA) hefur sagt að einn liðsmanna sinna hafi skotið McKee, sem var 29 ára gömul, þegar hópurinn skaut að lögreglumönnum í óeirðunum. NIRA er einn fárra hópa sem er andsnúinn friðasamkomulaginu á Norður-Írlandi frá 1998.

Lögreglan sagði að sá sem hleypti af skotinu sem varð McKee að bana gengi enn laus þegar 52 ára gamall karlmaður var ákærður vegna dauða hennar í fyrra, að sögn Reuters-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×