Innlent

Sau­tján ára brota­þoli í kyn­ferðis­brota­máli þarf að koma fyrir dóm

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur
Landsréttur Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þess efnis að sautján ára brotaþoli í kynferðisbrotamáli þurfi að koma fyrir dóm sem vitni.

Í málinu er einstaklingur ákærður fyrir að hafa á áranum 2016 til 2017 haft samræði við brotaþolann, sem þá var þrettán ára, í nokkur skipti, og fyrir kynferðislega áreitni með því að hafa í fjölda skipta sent brotaþola, myndir og myndbönd af sjálfum sér sem sýndu hann á kynferðislegan hátt.

Aðalmeðferð í málinu er framundan og á vitnalista þar var nafn brotaþolans ekki að finna. Krafðist verjandi ákærða í málinu þess að brotaþolinn myndi koma fyrir dómara við aðalmeðferð málsins.

Ákæruvaldið og réttargæslumaður brotaþolans lögðust gegn kröfunni á þeim grundvelli að brotaþolinn, sautján ára stúlka, hefði þegar gefið skýrslu í tvígang, sem tekið var upp á myndband. Engin ástæða sé til þess að leiða stúlkuna fyrir dóminn á ný.

Taldi réttargæslumaður stúlkunnar að það myndi reynast henni mjög þungbært að koma aftur fyrir dóminn. Það myndi tefja fyrir bata hennar.

Í niðurstöðu dóms héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, er vísað í meginreglu þess efnis að öllum eldri en fimmtán ára sé skylt að mæta fyrir dóm sem vitni, sé þess krafist. Þarf stúlkan því að koma fyrir dómara við aðalmeðferð málsins og bera vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×