Innlent

Bandaríski flugherinn æfir við Ísland næstu daga

Árni Sæberg skrifar
Flugvélarnar sem lentu á Keflavíkurflugvelli í kvöld eru af gerðinni Northrop B-2 Spirit.
Flugvélarnar sem lentu á Keflavíkurflugvelli í kvöld eru af gerðinni Northrop B-2 Spirit. Ethan Miller/Getty

Þrjár bandarískar herflugvélar af gerðinni Northrop B-2 Spirit komu til landsins í kvöld og verða hér við æfingar næstu daga.

Samkvæmt tilkynningu Landhelgisgæslunnar munu tvö hundruð liðsmenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu. Flugherinn muni hafa tímabundið aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Kvikmyndatökumaður Víkurfrétta náði myndbandi af komu vélanna í kvöld.

Æfingarnar muni gefa bandarísku flugsveitinni tækifæri til að kynnast staðháttum á Norður-Atlantshafi, þar með talið hér á landi og til að æfa með öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins. Samskonar æfingar fari fram reglulega í Evrópu, síðast hér við land í mars.

Þá segir að eins og með annan erlendan liðsafla sem hér á landi dvelur tímabundið þá sé í gildi viðbúnaður vegna sóttvarna meðan á dvöl bandarísku flugsveitarinnar stendur og sé framkvæmdin unnin í samvinnu við embætti landlæknis og aðra sem að sóttvörnum koma hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×