Erlent

Útgáfu Apple Daily í Hong Kong hætt um helgina

Atli Ísleifsson skrifar
Einn blaðasala Hong Kong ákvað á dögunum að henda ekki gömlum tölublöðum Apple Daily, heldur selja þau áfram í mótmælaskyni.
Einn blaðasala Hong Kong ákvað á dögunum að henda ekki gömlum tölublöðum Apple Daily, heldur selja þau áfram í mótmælaskyni. epa/Jerome Favre

Vef- og prentútgáfu fjölmiðilsins Apple Daily í Hong Kong verður hætt í síðasta lagi á laugardag. Frá þessu segir í tilkynningu frá stjórn útgáfunnar í morgun og er ástæðan sögð vera ríkjandi aðstæður í Hong Kong.

Fjölmiðillinn hefur talað fyrir auknu lýðræði í Hong Kong og gegn ítökum kínverskra stjórnarvalda, en stofnandi fjölmiðilsins, Jimmy Lai, var í vor dæmdur í árs fangelsi vegna aðildar sinnar að mótmælum. 

Lögregla í Hong Kong gerði húsleit á skrifstofum fjölmiðilsins á dögunum og voru fimm ritstjórar og framkvæmdastjórar handteknir, auk þess að eignir að verðmæti tveimur milljónum dala, um 300 milljónum króna, voru frystar. 

Nýleg öryggislög í Hong Kong banna allan áróður um aðskilnað Hong Kong frá Kína, sem og áróður gegn Kínastjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×