Innlent

Tveir í bifreið en neituðu báðir að vera ökumaðurinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt við að stöðva ökumenn með óhreint mjöl í pokahorninu.

Um kl. 20 stöðvaði hún til að mynda bifreið í miðbæ Reykjavíkur þar sem tveir reyndust í bílnum en hvorugur vildi gangast við því að hafa verið við stýrið. Báðir voru í annarlegu ástandi og voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá lék grunur á að þeir hefðu tekið bifreiðina ófrjálsri hendi.

Fyrr um kvöldið höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni sem framvísaði erlendu ökuskírteini. Lögreglumenn grunaði að skírteinið væri falsað og fengu játningu þar að lútandi en viðkomandi var handtekinn fyrir að aka án réttinda og fyrir skjalafals.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum. Einn freistaði þess að komast undan á hlaupum en náðist. Sá reyndist réttindalaus.

Rétt fyrir kl. 20 var tilkynnt um líkamsárás í Hlíðunum en gerandi er sagður hafa tekið bifreið brotaþola og yfirgefið vettvang. Þá voru afskipti höfð af tveimur einstaklingum vegna þjófnaðar úr verslunum en um var að ræða tvö aðskilin tilvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×