Erlent

Enginn Morgan á morgnana í kjölfar ummæla um Meghan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Morgan og Meghan voru eitt sinn vinir en sjónvarpsmaðurinn hefur sakað hertogaynjuna um að hafa lokað á sig eftir að hún fann draumaprinsinn.
Morgan og Meghan voru eitt sinn vinir en sjónvarpsmaðurinn hefur sakað hertogaynjuna um að hafa lokað á sig eftir að hún fann draumaprinsinn. epa

Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur ákveðið að hætta sem einn þáttastjórnenda Good Morning Britain, eftir uppákomu í þættingum í gærmorgun þegar viðtal hertogahjónanna Harry og Meghan við Oprah Winfrey bar á góma.

Ríflega 41 þúsund kvartanir bárust eftirlitsaðilanum Ofcom vegna uppákomunnar og er rannsókn á málinu hafin.

Í viðtalinu greindi Meghan frá andlegum erfiðleikum á meðgöngu, vegna óvæginnar fjölmiðlaumfjöllunnar og afar takmarkaðs stuðnings frá konungsfjölskyldunni. Sagði hún að sér hefði verið neitað um aðstoð og hvött til að yfirgefa ekki heimili sitt um langt skeið.

„Ég vildi bara ekki lifa lengur. Það var skýr, raunveruleg, ógnvekjandi og stöðug hugsun,“ sagði hún.

Morgan, sem hefur gagnrýnt hertogaynjuna harðlega í gegnum tíðina, meðal annars fyrir að gefa vinskap þeirra upp á bátinn, sagðist ekki trúa einu orði af því sem hún sagði. „Ég myndi ekki trúa henni þó hún væri að segja mér veðurfréttirnar,“ sagði hann.

Í þættinum í morgun ítrekaði hann að hann ætti erfitt með að trúa því sem Meghan hafði fram að færa í viðtalinu við Winfrey en sagði einnig að andlegir erfiðleikar og sjálfsvíg væru eitthvað sem bæri að taka alvarlega.

Seinna í þættinum gekk hann hins vegar af sviðinu eftir að veðurfræðingur þáttarins skammaði sjónvarpsmanninn fyrir framgöngu hans gagnvart Meghan.

„Hún má loka á þig ef hún vill. Hefur hún sagt eitthvað um þig síðan hún lokaði á þig? Ég held ekki en samt heldur þú áfram að hrauna yfir hana,“ sagði Alex Beresford við Morgan.

ITV hefur lýst því yfir að ágreiningurinn í þættinum hafi ekki verið ákveðinn fyrirfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×