Innlent

Fjögur svæði líklegust og öll fjarri íbúabyggð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mestar líkur eru á að eldur kæmi upp á Fagradalssvæðinu taki kerfið upp á því að gjósa.
Mestar líkur eru á að eldur kæmi upp á Fagradalssvæðinu taki kerfið upp á því að gjósa. Vísir/Vilhelm

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands greinir frá því að eftir síðasta sólarhring hafi elduppkomunæmissvæði breyst nokkuð. Nú séu fjögur meginsvæði. Frá vestri til austurs eru þau Eldvörp, Sýlingafell, Fagradalsfjallssvæðið og Móhálsadalur, milli Djúpavatns og Trölladyngju.

Dreifing á skjálftum geri það að verkum að eldsuppkomunæmið hafi breyst talsvert frá því gær.

„Öll eru þessi svæði fjarri íbúðabyggð og mestar líkur á að eldur komi upp á Fagradalssvæðinu taki kerfið upp á því að gjósa. Eins og áður látum við gjósa með 500 m millibili innan gosnæmnisvæðanna og eldgos eru endurtekin 1500 sinnum á hverjum gosstað,“ segir í færslu hópsins á Facebook.

Líkanið greinir síðan líklegustu rennslisleiðir hrauns frá þessum gosstöðum.

„Nú ætlum við að birta hraunrennslis leiðir fyrir hvert svæði fyrir sig. Mjög ólíklegt er að gjósi á öllum svæðum í einu. Enn er mikil óvissa um nákvæma staðsetningu eldstöðva komi til eldgoss.“

Þá setur hópurinn þann fyrirvara að í útreikningum á eldsuppkomunæminu vegi langtíma mat 40 prósent, síðasti sólahringur 40 prósent og síðasta mat 20 prósent.

Staðsetning jarðskjálfta fengin frá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×