Innlent

„Þetta er bara svo gaman“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Bakarar höfðu í nægu að snúast í dag sem fyrr á bolludegi og seldu tugþúsundir rjómabolla. Hin klassíska vatnsdeigsbolla með súkkulaði er áfram langvinsælust á meðal landsmanna og nýjungar í mataræði höfðu lítil áhrif á söluna.

Viðskiptavinir streymdu inn í bakarí landsins strax við opnun snemma í morgun og straumurinn var stöðugur í allan dag.

„Við hættum um klukkan þrjú í gær, svo var bara farið heim og sofið í nokkra klukkutíma og þá er byrjað aftur,“ segir Þorleifur Karl Reynisson, bakari hjá Reyni bakara. „Mér líður bara ágætlega. Maður nær ekkert að verða þreyttur. Þetta er bara svo gaman,“ bætir hann við.

Hin klassíska rjómabolla með súkkulaði er alltaf langvinsælust en færri sækja í gerbollurnar. Nýjungar í mataræði og lífsstíl fólks virðast hafa haft lítil áhrif.

Bardagakapparnir Sunna Rannveig og Hrólfur Ólafsson héldu daginn hátíðlegan. Þau deildu tveimur bollum sín á milli en unnu fyrir þeim með stífum æfingum, að eigin sögn.Vísir/Sigurjón

„Ég myndi segja að hún sé að verða vinsælli og það er meira að gera. Kannski af því að það er meira af fólki á landinu og í bænum en hún hefur ekki misst neinar vinsældir þrátt fyrir allt vegan og ketó,“ segir Þorleifur en ríflega tuttugu þúsund bollur seldust í bakaríinu í dag.

Fréttastofa leit við í bakaríinu í dag eins og sjá má á innslaginu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×