Innlent

Farþegum Strætó hefur fækkað um helming

Samúel Karl Ólason skrifar
Búist er við því að farþegum hafi og muni fækka enn frekar þessa vikuna, eftir að samkomubannið var hert í byrjun hennar.
Búist er við því að farþegum hafi og muni fækka enn frekar þessa vikuna, eftir að samkomubannið var hert í byrjun hennar. Vísir/Vilhelm

Farþegum strætisvagna höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað til muna vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar og samkomubannsins. Að meðaltali hafði farþegum fækkað um helming, miðað við tölur frá síðustu viku. Tekjur Strætó hafa lækkað á sambærilegan máta, samhliða fækkun farþega.

Búist er við því að farþegum hafi og muni fækka enn frekar þessa vikuna, eftir að samkomubannið var hert í byrjun hennar.

Í síðustu viku var ákveðið að skipta farþegarýmum í strætisvögnum í tvennt og aðskilja svæði bílstjóra og farþega. Áður hafði farþegum verið gert að ganga inn í vagna um mið- eða afturdyr.

Sjá einnig: Farþegarýmum strætisvagna verður skipt upp

Viðskiptavinir Strætó eru hvattir til að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir, þvo hendur reglulega og spritta. Góð regla er að vera með sitt eigið handspritt á sér. Þá eru viðskiptavinir hvattir til að sýna varkárni í samskiptum, vera meðvitaðir um smitleiðir veirunnar og ekki ferðast með almenningssamgöngum ef grunur leikur á smiti.

Enn sem komið er hefur leiðakerfi Strætó verið óbreytt. Þó er ekki útilokað að það muni breytast á næstunni og ferðum fækkað. Forsvarsmenn fyrirtækisins eru að skoða málin og meta stöðuna á hverjum degi fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×