Erlent

Sagði af sér eftir örfáa daga í embætti

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Manuel Merino, forseti Perú, sagði af sér í dag eftir aðeins nokkra daga í embætti.
Manuel Merino, forseti Perú, sagði af sér í dag eftir aðeins nokkra daga í embætti. EPA

Manuel Merino, forseti Perú, sagði af sér í dag eftir aðeins nokkra daga í embætti. Merino sagði af sér í kjölfar mikilla mótmæla sem staðið hafa yfir síðan ríkisstjórn hans tók til starfa en tveir ungir menn, 24 og 25 ára, létust í mótmælunum í gær.

Merino gegndi áður stöðu þingforseta en hann tók við embætti forseta af Martín Vizcarra sem þurfti að víkja úr embætti í síðustu viku eftir að vantrauststillaga á hendur honum var samþykkt vegna ásakana um mútugreiðslur sem Vizcarra vísar á bug.

Valdamiklir stjórnmálamenn höfðu kallað eftir því að arftaki hans, Manuel Merino, myndi víkja strax aftur úr embætti í ljósi ofbeldisfullra mótmæla sem brutust út gegn ríkisstjórn hans. Tólf ráðherrar úr nýskipaðri ríkisstjórn Merino sögðu af sér í dag í mótmælaskyni við lögregluofbeldi og það hvernig Merino hafi tekist á við ástandið.

Tugþúsundir mótmælenda, að miklu leyti ungt fólk, hafa tekið þátt í mótmælum undanfarna daga til að andmæla ákvörðun þingsins um að víkja Vizcarra úr embætti. Mótmælendur saka þingið um valdarán en Vizarra hefur notið stuðnings meðal margra kjósenda á vegferð sinni til að stuðla að umbótum.

Mótmælin í höfuðborginni Lima í gær fóru að mestu leyti friðsamlega fram en til átaka kom þegar tók að líða undir kvöld og kom til stimpinga milli lögreglu og mótmælenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×