Veiði

Leyfi í Blöndu og Svartá komin á Veiða.is

Karl Lúðvíksson skrifar
Nú verður aðeins veitt á flugu í Blöndu
Nú verður aðeins veitt á flugu í Blöndu

Blanda hefur verið eitt af vinsælustu veiðisvæðum landsins og Blöndu þekkja veiðimenn líklega einna best fyrir hátt hlutfall stórlaxa.

Nýr leigutaki tók við ánni fyrir sumarið 2020 og nú eru veiðileyfi í bæði Blöndu og Svartá komin á vefinn hjá Veiða.is en á vefnum hjá þeim má einnig finna nýtt fyrirkomulag á svæðinu sem undirritaður telur að komi til með að gera það að verkum að mun fleiri sæki í að veiða þarna.

Á komandi veiðitímabili verður einungis leyfilegt að veiða með flugu á veiðisvæði Blöndu og Svartár. Síðustu ár hefur blandað agn verið leyfilegt á hluta svæðis I og að öllu leyti uppá svæði II og III. Sumarið 2020 má eingöngu veiða á flugu á öllu veiðisvæði Blöndu og Svartár. Önnur breyting sem gerð hefur verið er að einungis má „hirða“ einn hæng sem er undir 68 cm á hverri vakt, hver stöng. Síðustu ár hefur verið mjög rúmur kvóti í Blöndu sem hefur leitt til að mjög stór hluti aflans á svæði I hefur verið drepinn sem þá að sjálfsögðu hefur dregið úr göngum uppá efra svæði Blöndu og uppí Svartá. Við þessa breytingu þá á mun meira að fiski að ganga upp eftir, en ella hefði orðið, veiðimönnum til ánægju og gleði en einnig til að stuðla að sterkari náttúrulegri uppbyggingu árinnar.

Nú í sumar, þá verður gerð ein megin breyting á nýtingu neðstu 3ja veiðisvæðanna. Fljótlega eftir að svæði II og III opna, eða þann 24. júní, þá eru þau veidd í róteringu með veiðisvæði I – þó þannig að stöngum er fækkað á svæði II og III. Fæðis og gistiskylda er í júní og fram til 2. ágúst.

Í júní er samtals veitt með 4 stöngum á svæði I, 1 stöng á svæði II og 1 stöng á Svæði III. Samtals 6 stangir. Þessi 3 svæði eru veidd saman. Í júlí er samtals veitt með 4 stöngum á svæði I, 2 stöngum á svæði II og 2 stöngum á Svæði III. Samtals 8 stangir. Þessi 3 svæði eru veidd saman.

Í júní og júlí er því um fækkun heildar fjölda stanga að ræða í Blöndu. Á veiðisvæði IV verður eftir sem áður veitt á 3 stangir en heildarfjöldi stanga í júní og júlí verður að hámarki 11 sem veitt er á, á degi hverjum í staðinn fyrir 14 stangir. Frá og með 2. ágúst þá verður hinsvegar selt sér á hvert og eitt svæði í Blöndu.

Frekari upplýsingar og lausa daga má finna á www.veida.is

 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.