Innlent

Sund­laugarnar verða opnar

Sylvía Hall skrifar
Sundgestir borgarinnar þurfa ekki að örvænta þó nýjar takmarkanir taki gildi á morgun.
Sundgestir borgarinnar þurfa ekki að örvænta þó nýjar takmarkanir taki gildi á morgun. Vísir/Vilhelm

Starfsemi sundlauga í Reykjavík verður löguð að þeim fjöldatakmörkunum sem taka gildi á hádegi á morgun. Það sama er að segja um Ylströndina í Nauthólsvík og Fjölskyldu- og húsdýragarðin svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er niðurstaða fundar neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar sem fór fram í dag.

Velferðarsvið hefur takmarkað gestafjölda til þess að vernda viðkvæma hópa og hafa verið gefnar út leiðbeiningar til aðstandenda íbúa á hjúkrunarheimilum, í þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara, íbúakjörnum og á sambýlum fyrir fatlað fólk. Engar einingar munu loka og þjónusta verður ekki skert að svo stöddu.

Hvað varðar sundlaugarnar verður opnunartími óbreyttur en merkingar um fjöldatakmarkanir verða settar upp við potta og gufur. Spritt verður aðgengilegt og tveggja metra reglunni verður fylgt líkt og á öðrum stöðum.

Hefðbundin dagskrá í kringum dýr í Húsdýragarðinum fellur niður og þá verður loðdýra-, smádýra og skriðdýrahúsi lokað. Þrumufleygur verður lokaður og fjöldatakmarkanir verða í veitingasölunni. Sjálfsalar og grill á svæðinu verða lokuð.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að borgin sé í viðbragðsstöðu og mun hún grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við tilmæli almannavarna og sóttvarnalæknis. Þjónustan mun haldast í megindráttum óbreytt en vinnulag verður sniðið að nýjum takmörkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×