Innlent

Unnið út frá því að eldurinn hafi komið upp í þurrkara

Andri Eysteinsson skrifar
Húsið var verulega illa farið eftir brunann.
Húsið var verulega illa farið eftir brunann. Vísir

Enn er beðið eftir skýrslu tæknideildar og Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar vegna rannsóknar á vettvangi brunans í Hafnarstræti á Akureyri 19. maí síðastliðinn þar sem karlmaður á sjötugsaldri lést. Lögreglan á Akureyri segir að til rannsóknar sé að eldurinn hafi komið upp í þurrkara. RÚV greindi fyrst frá.

Allt tiltækt slökkvilið Akureyrar var kallað á vettvang húsbrunans á Hafnarstræti á áttunda tímanum 19. maí en slökkvistarf stóð lengi yfir. Um var að ræða þriggja hæða íbúðarhús úr timbri. Maðurinn sem lést fannst rænulaus á miðhæð hússins. Var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann lést.

„Það er til rannsóknar, það er rafmagnstækið sem var tekið til sérstakrar rannsóknar eftir vettvangsrannsókn með tæknideild og Húsnæðis og Mannvirkjastofnun. Verið er að rannsaka hvað veldur, við fáum sérfræðinga í það og bíðum eftir skýrslunni,“ segir Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í samtali við Vísi.

Þá sagði Bergur að sama staða væri í rannsókn lögreglunnar á brunanum í Hrísey, sérfræðingar séu að störfum og ekkert nýtt komið upp í rannsókninni á meðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×