Erlent

Microsoft segist hafa stöðvað rússneska tölvuþrjóta

Kjartan Kjartansson skrifar
Hakkarahópurinn Fancy Bear stóð einnig að tölvuárásum á Demókrataflokkinn fyrir forsetakosningarnar árið 2016.
Hakkarahópurinn Fancy Bear stóð einnig að tölvuárásum á Demókrataflokkinn fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Vísir/Getty

Tæknirisinn Microsoft segist hafa komið í veg fyrir tilraun rússneskra tölvuþrjóta til að gera árásir á hópa bandarískra íhaldsmanna. Hakkararnir hafi reynt að stela gögnum frá íhaldssömum stjórnmálasamtökum og hugveitum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa varað við því að útsendarar rússneskra stjórnvalda gætu aftur reynt að hafa áhrif á kosningar í haust líkt og þeir gerðu í aðdraganda forsetakosninganna fyrir tveimur árum. Kosið verður til Bandaríkjaþings í nóvember.

Í bloggfærslu um tilraun tölvuþrjótana sem var stöðvuð varar Microsoft við því að hún gæti verið upphafið á svonefndum vefveiðum (e. phishing) þeirra. Þær ganga út á að gabba netnotendur inn á vefsíður í þeim tilgangi að stela aðgangsupplýsingum þeirra. Slóðir og útlit svikavefsíðnanna eru látin líkjast frummyndinni sem mest.

Microsoft segir að Flotti björn (e. Fancy Bear), hópur hakkara, hafi staðið að árásinni nú. Fyrirtækið hafi lokað 84 síðum sem hópurinn hafi stofnað undanfarin tvö ár. Tólf Rússar sem ákærðir voru í tengslum við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, fyrir tölvuárásir fyrir kosningarnar árið 2016 tilheyra meðal annars hópnum og leyniþjónustu rússneska hersins.

„Við höfum áhyggjur af því að þessi og aðrar tilraunir ógni öryggi sístækkandi mengi hópa sem tengjast báðum bandarísku stjórnmálaflokkunum í aðdraganda kosninganna 2018,“ segir Microsoft.

New York Times leiðir að því líkur að sumir hóparnir hafi orðið að skotmarki hakkaranna vegna þess að þeir hafi snúið bakinu við Donald Trump Bandaríkjaforseta og kallað eftir frekari refsiaðgerðum gegn Rússlandi.


Tengdar fréttir

12 Rússar ákærðir vegna Mueller rannsóknarinnar

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag um að 12 rússneskir ríkisborgarar hefðu verið ákærðir grunaðir um að hafa meðal annars brotist inn á tölvukerfi demókrataflokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.