Innlent

Oddvitar í Reykjavík í tilhugalífinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson og S. Björn Blöndal gáfu það út alla kosningabaráttuna að vilji væri fyrir samstarfi.
Dagur B. Eggertsson og S. Björn Blöndal gáfu það út alla kosningabaráttuna að vilji væri fyrir samstarfi. Vísir/vilhelm
Viðræður Samfylkingar, Betri framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hófust í gær en þó með ósköp afslöppuðum hætti. Oddvitarnir áttu þriggja tíma fund í heimahúsi þar sem grundvöllur til meirihlutamyndunar í borgarstjórn var kannaður.

Allir eru sammála um að fundurinn hafi gengið mjög vel en enginn vildi tjá sig um hvað fór fram á honum.

„Hópurinn ætlar að gefa sér góðan tíma í frekari viðræður og ég geri ekki ráð fyrir að það verði mikið að frétta fyrr en einhvern tímann í næstu viku,“ segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar.

S. Björn Blöndal segir að fundurinn hafi verið notaður til að gefa tilfinningum rými því þannig losni fólk við krump. „Okkur finnst mikilvægt að mynda traust og þess vegna má ekki flýta sér of mikið,“ segir Björn og líkir fyrstu stigum viðræðnanna við tilhugalíf elskenda.

Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata, lýsir stemningunni sem rólegri og segir að aðeins grófar línur hafi verið lagðar sem Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, tekur undir. 

„Við höfum fulla trú á þessu og ég er viss um að næsta kjörtímabil verður gott í Reykjavík,“ segir Sóley. 

Oddvitarnir gera ráð fyrir að hittast alla þessa viku og halda áfram viðræðum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.