Innlent

Stúlkan lagði sjálf fram myndbandsupptökuna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
vísir/vilhelm
Stúlkan sem kærði fimm pilta fyrir nauðgun í síðustu viku lagði sjálf fram myndbandsupptöku sem tekin var upp á síma eins ákærða og er upptakan sögð styðja framburð hennar um atvikið.

Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir fimmenningunum en Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurðinn. Munu þeir sitja í gæsluvarðhaldi til 15. maí og er þeim gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Piltarnir eru á aldrinum sautján til nítján ára en stúlkan kærði nauðgunina til lögreglu á miðvikudaginn í síðustu viku. Atvikið mun hafa átt sér stað í Breiðholti aðfaranótt sunnudagsins 4. maí. Í kjölfar kærunnar voru piltarnir handteknir og í greinargerð lögreglu kemur fram að símar þeirra og tölvur hafi verið haldlagðar.

Hjálpuðust að við að færa stúlkuna úr fötunum

Fimmmenningarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna en segjast hafa talið það hafa verið með hennar samþykki. Kærðu ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás tengda honum.

Í greinargerðinni kemur fram að ekki þyki vafi leika á því að piltarnir hafi hjálpast að við að færa stúlkuna úr fötum áður og á meðan þeir höfðu við hana samfarir.

Fram kemur að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að fimmmenningunum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra þá frekar, hafa uppi á vitnum og yfirheyra þau. Jafnframt eigi eftir að rannsaka síma- og tölvugögn sakborninganna. Málið sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að piltarnir muni torvelda rannsókn málsins gangi þeir lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×