Innlent

40% taka ekki afstöðu

Fjörutíu prósent þjóðarinnar vilja ekki taka afstöðu til þeirra stjórnmálaflokka sem hyggjast bjóða fram til alþingiskosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirburðarfylgi meðal þeirra sem taka afstöðu.

Nýjasta könnun Stöðvar 2 á fylgi stjórnmálaflokkanna sýnir að af þeim sem taka afstöðu er Framsóknarflokkurinn með 15,8%, Björt framtíð 5,3%, Samstaða með 5,1% og Sjálfstæðislokkurinn langstærstur með 43,7%. Samfylkingin er samkvæmt þessu orðin minni en Framsókn, og er með 13,6% fylgi og Vinstri græn með 9,2%.

Aðeins tæplega 23% þeirra sem taka afstöðu styðja því stjórnarflokkana en samanlagt eru þeir tæplega hálfdrættingar á við Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta segir þó aðeins hálfa söguna því nærri 40% þeirra sem rætt var við tóku ekki afstöðu. Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur í könnunum, segir óvissuna mikla og telur að styrkur Sjálfstæðisflokksins gæti skýrst af mikilli umræðu um kvótamálin.

„Umræðan hefur verið tiltölulega einhliða," segir Kolbeinn.

„Útgerðin hefur stýrt henni dálítið mikið og stjórnin ekki endilega komið sínum málstað skýrt á framfæri og fyrir vikið getur vel verið að einhverjir séu kannski óttaslegnir um störf sín og halli sér þess vegna í áttina á Sjálfstæðisflokknum. En ég vil kannski ítreka það að stóra óvissan í þessari könnun liggur líklega vinstra megin við miðjuna í sambandi við útkomu nýju framboðanna gegn gömlu flokkunum."

Forseti Íslands hefur ýjað að því að framboð Þóru Arnórsdóttur sé runnið undan rifjum Samfylkingar. Hún hefur hins vegar um það bil þrefalt meira fylgi en Samfylkingin samkvæmt þessari könnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×