Innlent

Þurftu að laga dóminn yfir Baldri

Baldur fær að vita niðurstöðuna í máli sínu eftir hádegi í dag.
Baldur fær að vita niðurstöðuna í máli sínu eftir hádegi í dag. Fréttablaðið/gva
Hæstiréttur hætti við að kveða upp dóm í innherjasvikamáli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, í gær eins og til hafði staðið samkvæmt dagskrá. Dómurinn verður í staðinn kveðinn upp klukkan 13.30 í dag.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóra Hæstaréttar, rekur ekki minni til þess að svona nokkuð hafi komið fyrir áður. „Ég þori ekki að fullyrða að það hafi aldrei gerst en þetta er mjög sjaldgæft,“ segir Þorsteinn.

„Þegar á reyndi var endurrit dómsins ekki alveg tilbúið. Þetta voru bara smáatriði sem þörfnuðust lagfæringar, sem ekki tókst að ganga frá fyrir fjögur.“

Þorsteinn segir að yfirleitt reyni menn að forðast það að leggja lokahönd á dóma örstuttu fyrir áætlaða uppkvaðningu. „En það gerist stundum að eitthvað kemur upp við lokayfirlestur og menn þurfa þá að snurfusa hlutina þótt þeir eigi að vera tilbúnir.“

Yfirleitt eru dómar Hæstaréttar kveðnir upp á fimmtudögum en ákveðið var að fresta málinu ekki lengur en fram til dagsins í dag. „Það er ekki gott fyrir menn að þurfa að bíða í óvissu um hver örlög þeirra verða í svona málum,“ segir Þorsteinn. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×