Innlent

Tom Cruise fær sumarvinnu á Íslandi



Kvikmyndastjarnan Tom Cruise mun að öllum líkindum dvelja á Íslandi í nokkrar vikur næsta sumar við upptökur á tólf milljarða króna Hollywood-stórmynd. Búist er við að tvöhundruð manna kvikmyndalið frá Universal fylgi honum til landsins.

Eyðilegt landslag á Íslandi fær það hlutverk í myndinni að vera jörðin í framtíðinni þegar hún er orðin óbyggileg en það sem eftir lifir af mannkyni býr í einskonar skýjaborgum svífandi yfir jörðu. Myndin verður gerð eftir skáldsögunni Oblivion og fjallar um hermann sem er sendur til yfirborðs jarðar til að leita uppi og tortíma framandi og óvinveittum lífverum. Njósnafar hans skemmist og hermaðurinn situr einn fastur á jörðinni.

Tom Cruise hefur þegar skrifað undir samning um að leika hermanninn sem lendir óvænt í því að rekast á fallega konu á jörðinni og þarf hermaðurinn að meta hvort konan sé raunveruleg manneskja eða dulbúin óvinveitt geimvera, sem honum ber að drepa. Þrjár leikkonur eru nú helst nefndar í aðalkvenhlutverkið, Kate Beckinsale, Hayley Atwell og Diane Kruger.

Universal framleiðir myndina, sem áætlað er að kosti tólf milljarða króna. Leikstjóri verður Joseph Kosinski, sem síðast leikstýrði myndinni Tron Legacy, en hann fór um Ísland síðastliðið sumar að leita að hentugum tökustöðum, í fylgd starfsmanna íslenska fyrirtæksins True North, sem annast skipulagningu hérlendis.

Áætlað er að kvikmyndatökur standi yfir fyrrihluta næsta sumars, einkum á hálendinu, og að Tom Cruise dvelji hér á landi í nokkrar vikur ásamt um tvöhundruð manna kvikmyndaliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×