Innlent

Ísfirðingum ekki greint frá eiturgufum frá sorpbrennslu

Ísafjörður
Ísafjörður
Eiturefnið díoxín mældist 20 sinnum hærra en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir í útblæstri frá sorpbrennslunni Funa á Ísafirði árið 2007. Þáverandi bæjarstjóri á Ísafirði segir að allar mælingar hafi verið kynntar opinberlega. umhverfismál Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði var í sjö ár undanþegin ströngum reglum um losun eiturefnisins díoxín.

Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði var í sjö ár undanþegin ströngum reglum um losun eiturefnisins díoxín. Efnið, sem mældist í mjólk á bæ í næsta nágrenni við sorpbrennsluna í desember, er krabbameinsvaldandi og eitt það eitraðasta í náttúrunni.

Aðeins ein mæling á díoxíni í útblæstri sorpbrennslunnar hefur verið gerð síðan reglurnar voru innleiddar hér á landi. Mælingin, sem var gerð 2007, sýndi að losunin var rúmlega tuttugu sinnum meiri en viðmiðunarmörk reglugerðarinnar fyrir nýjar stöðvar segir til um.

Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hollustuverndarsviðs Umhverfisstofnunar, veit ekki til þess að fólki á Ísafirði hafi verið greint frá því á þessum tíma að reykur frá sorpbrennslunni innihéldi mengunarefni.

Pétur Tryggvi Hjálmarsson, silfursmiður á Ísafirði, sem lengi hefur gagnrýnt sorpbrennsluna, útilokar með öllu að niðurstaða mælingarinnar hafi verið kynnt sérstaklega. Steingrímur Jónsson, bóndi á Efri-Engidal, þar sem díoxínið mældist í mjólk, lýsti áhyggjum af framtíð sinni og heilsu í Fréttablaðinu á fimmtudag. Hann hefur árum saman talið reykinn skaðlausan.

Sigríður segir að þegar Evróputilskipun um brennslu úrgangs var innleidd árið 2003 hafi starfandi sorpbrennslur fengið aðlögunartíma að kröfum reglugerðarinnar og því fengið undanþágu. Sett var skilyrði um að díoxín yrði mælt einu sinni, en sorpbrennslurnar þyrftu ekki að uppfylla strangar kröfur reglugerðarinnar fram að þeim tíma eða síðar. Eftir mælinguna átti að endurskoða undanþáguna. Sigríður segir þá vinnu standa yfir í samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA og fleiri aðila.

Varðandi díoxínmælinguna hjá Funa segir Sigríður að hún hafi verið gerð fjórum árum eftir að Evróputilskipunin var innleidd hér. Niðurstaðan var að díoxínið frá Funa var rúmlega tuttugu sinnum hærra en viðmiðunarmörk fyrir nýjar stöðvar í reglugerðinni.

Þáverandi bæjarstjóri á Ísafirði kannast ekki við að bærinn hafi látið undir höfuð leggjast að greina frá mælingum hjá Funa.

"Ég man ekki betur en að mælingar hafi verið gefnar út jafnóðum. Upplýsingum sem komu á mitt borð var ekki stungið undir stól," segir Halldór Halldórsson.

Sorpbrennslunni Funa var lokað nú um áramótin. - shá





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×