Innlent

Vilja ekki styrki frá Evrópusambandinu

Jón Bjarnason vill ekki styrki.
Jón Bjarnason vill ekki styrki.

Talsverð andstaða er innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs við að íslenska ríkið þiggi svonefnda IPA-styrki frá Evrópusambandinu.

Styrkirnir standa umsóknarríkjum sambandsins til boða og eru fyrst og fremst ætlaðir til að búa stjórnsýslu þeirra undir aðild að því.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er sú skoðun ríkjandi innan VG að ekki beri að þiggja slíka styrki. 28 milljónir evra, 4,3 milljarðar króna, standa Íslendingum til boða.

Tveir ráðherrar VG, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafa þegar ákveðið að sækjast ekki eftir styrkjum til verkefna í sínum ráðuneytum.

Ögmundur Jónasson hefur sett umsóknir forvera sinna á ís. Bæði Kristján Möller og Ragna Árnadóttir, sem gegndu þeim ráðherraembættum sem Ögmundur sinnir nú, höfðu sótt um styrki til tilgreindra verkefna. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins ætlar Ögmundur að endurskoða þær ákvarðanir.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið unnið að umsóknum vegna tveggja verkefna en óvíst er hvort þeim verður fylgt eftir. Í umhverfisráðuneytinu er á hinn bóginn unnið að umsóknum.

Ráðherrar Samfylkingarinnar vilja allir nýta styrkina.

Eftir því sem næst verður komist er framhald málsins í óvissu. Ráðherranefnd um Evrópumál hefur ekki fjallað um það en þaðan liggur leið þess inn í ríkisstjórn.- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×